Vesturbyggð fagnar þjóðgarði á sunnanverðum Vestfjörðum

Á fundi bæjarstjórnar Vesturbyggðar í vikunni voru lögð fram drög að friðlýsingarskilmálum fyrir þjóðgarð á sunnanverðum Vestfjörðum. Bæjarstjóri fór yfir vinnu starfshópsins sem unnið hefur að málinu. Um er að ræða fyrsta þjóðgarðinn á Vestfjörðum og innan marka hans er friðlandið í Vatnsfirði og tvö náttúruvætti, Dynjandi og Surtrabrandsgil sem áður hafa verið friðlýst. Það land sem verður innan marka þjóðgarðsins er allt í eigu ríkisins.

Markmið friðlýsingarinnar skv. skilmálunum er að vernda og varðveita þetta einstaka svæði til framtíðar. Í skilmálunum er þó sérstaklega tekið tillit til núverandi nýtingar innan svæðisins sem og nauðsynlegrar innviðauppbyggingar m.a. veglagning um Dynjandisheiði.

Tækifæri í þjóðgarði

Bæjarstjórn fagnar áformunum og segir að mörg tækifæri séu fólgin í stofnun þjóðgarðs á sunnanverðum Vestfjörðum. Þá beri drög að friðlýsingaskilmálum þess merki að tekið hafi verið tillit til athugasemda og ábendinga íbúa og hagsmunaaðila þegar áform um stofnun þjóðgarðsins voru kynnt.

„Við áframhaldandi undirbúning fyrir stofnun þjóðgarðsins leggur bæjarstjórn áherslu á að gætt verði að nauðsynlegri innviðauppbyggingu innan marka þjóðgarðsins. Þá verði ekki settar íþyngjandi takmarkanir við framtíðarorkuöflun innan marka þjóðgarðsins, viðhald og endurnýjun raflína og orkumannvirkja verði ekki takmörkuð sem og uppbygging samgöngumannvirkja, m.a. á Dynjandisheiði.“

Bæjarstjórn hvetur íbúa og hagsmunaaðila til að skila sínum ábendingum og athugasemdum til umhverfisstofnunar, þegar friðlýsingarskilmálarnir verða auglýstir, en drögin að friðlýsingunni hafa ekki verið birt.