Vesturbyggð: bæjarráð vill skýra tekjustofna af eldismannvirkjum

Á síðasta fundi bæjarráðs Vesturbyggðar var lagt fram erindi frá Skipulagsstofnun þar sem óskað var eftir umsögn sveitarfélagsins um áform Arnarlax um tilfærslu eldisstarfsemi á eldissvæðum í Arnarfirði við Fossfjörð yfir á eldissvæði við Haganes og breyting á legu og afmörkun eldissvæðanna við Haganes, Steinanes og Hringsdal.

Bæjarráð gerði  ekki athugasemd við breytingu á eldissvæðunum í Arnarfirði en ítrekaði mikilvægi þess að litið sé til siglingaleiða við nánari staðsetningu eldissvæðanna.

Þá notaði bæjarráðið tækifærið til þess að árétta mikilvægi þess að við vinnslu strandsvæðaskipulags fyrir Vestfirði verði litið til skipulags og staðsetningu eldiskvíasvæða.

Til viðbótar var bætt við „að hugað verði að því að tryggja aðliggjandi sveitarfélögunum skýra tekjustofna af eldismannvirkjum með sambærilegum hætti og gert er með önnur mannvirki á landi í formi fasteignagjalda.“

Í nóvember síðastliðnum  kom fram í umsögn Vesturbyggðar um frumvarp á Alþingi um breytingar á hafnalögum að ákvæði um nýtt eldisgjald, sem hafnir innheimta af eldisfiski, sé óljóst og áfram muni ríkja óvissa um gjaldtökuna. Bent var á að ekki sé tiltekið hvort gjaldtaka eigi að fara eftir hlutfalli af söluverðmæti , fastri krónutölu pr kíló eða eftir öðrum leiðum.

Lagt er til í umsögn Vesturbyggðar að gjaldið verði minnst 0,7% og mest 3% af heildaraflaverðmæti  miðað við meðaltal alþjóðslegs markaðsverðs á Atlantshafslaxi fyrir þann mánuð sem slátrun fer fram.

Rebekka Hilmarsdóttir, bæjarstjóri segir að með bókunni nú sé  verið að vísa til þeirrar leiðar sem farin hefur verið m.a. í Noregi og tengst athugasemdum sveitarfélagsins um ráðstöfun á svokölluðu „auðlindagjaldi“ sem rennur allt til ríkisins. „Æskilegt er að sveitafélögin þar sem eldissvæðin eru hafi skýra tekjustofna, svo sem af eldismannvirkjum í formi fasteignagjalda og/eða hlutdeild í „auðlindagjaldinu“ sem rennur til ríkisins.“

DEILA