Verslun í heimabyggð – greining á sóknarfærum dreifbýlisverslana

Verslun Bjarna Eiríkssonar í Bolungarvík er ein af elstu verslunum landsins

Byggðastofnun hefur gefið út skýrslu um vanda dreifbýlisverslunar. Höfundur skýrslunnar er Emil B. Karlsson fyrrum forstöðumaður Rannsóknaseturs verslunarinnar

Tilgangur rannsóknarinnar er að finna leiðir til að eigendur þessara verslana geti snúið vörn í sókn, bæði með skilvirkum stuðningsaðgerðum stjórnvalda og með því að skjóta fleiri stoðum undir reksturinn.

Verslanir í litlum byggðalögum á Íslandi eru til umfjöllunar í nýrri rannsóknaskýrslu. Lýst er vanda þessara verslana, sem meðal annars felst í óhagstæðum innkaupum, háum flutningskostnaði og áhættu þeirra einstaklinga sem reka þessar verslanir. Einnig eru lagðar fram tillögur að skilvirkum aðgerðum sem ætlað er að styðja þessar verslanir til lengri tíma litið.

Dreifbýlisverslanir um allt land gegna veigamiklu hlutverki í að viðhalda byggð á fámennum svæðum, bæði með því að íbúar geti keypt nauðsynjar og ekki síður sem samfélagsmiðstöðvar. Um leið eiga þessar verslanir erfitt með að lifa af vegna fárra viðskiptavina og erfiðra ytri skilyrða.

Skýrslan sem er rúmar fjörtíu blaðsíður er aðgengileg á vef Byggðastofnunar.

DEILA