ÚUA hafnar kæru Náttúruverndarsamtaka Íslands og náttúruverndarfélagsins Laxinn lifi

Úrskurðarnefnd um umhverfis- og auðlindamál hafnaði á miðvikudaginn hluta af kæru frá Náttúruverndarsamtökum Íslands og náttúruverndarfélaginu Laxinn lifi varðandi eldi Arnarlax.

Skipulagsstofnun hafði komist að þeirri niðurstöðu að ekki þyrfti að gera umhverfismat fyrir þau áform fyrirtækisins að nota eldisnætur með ásætuvörn í sjóakvíaeldi í Patreksfirði og Tálknafirði.

Arnarlax hafði ákveðið að nota eldisnætur sem innihéldu koparoxíð. Það efni er hins vegar ekki heimilt að nota samkvæmt starfsleyfinu og var því sótt um leyfi til Umhverfisstofnunar fyrir því.

Markmiðið með notkun ásætuvarna sem innihalda koparoxíð er að draga úr þrifum á eldisnótum. Eldisnætur sem ekki innihaldi kopar þarf að þrífa á um það bil sex vikna fresti en nætur með ásætuvörn sem innihaldi koparoxíð þarf að þrífa á um það bil 8-12 mánaða fresti.

Umhverfisstofnun tilkynnti Skipulagsstofnun um fyrirhugaða breytingu sem ber svo að gefa álit sitt á henni. Að fengnum umsögnum var það niðurstaða Skipulagsstofnunar að á grundvelli fyrirliggjandi gagna væri framkvæmdin ekki líkleg til að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif og taldi ekki þörf á mati á umhverfisáhrifum.

Þessa niðurstöðu Skipulagsstofnunar kæru umrædd samtök til úrskurðarnefndarinnar í janúar og kröfðust þess að ákvörðunin verði felld úr gildi.  Jafnframt er gerð krafa um að réttaráhrifum ákvörðunarinnar verði frestað þar til niðurstaða úrskurðarnefndarinnar liggi fyrir.

Úrskurðarnefndin tók strax fyrir seinni kröfuna og hafnaði henni sem fyrr segir. Bíður fyrri krafan enn úrskurðar nefndarinnar.

Rök úrskurðarnefndarinnar eru þau að álit Skipulagsstofnunar sé ekki ákvörðun og lögin heimili ekki að kæra það enda sé álit ekki stjórnsýsluákvörðun. Það verði ekki fyrr en Umhverfisstofnun samþykki breytinguna á starfsleyfinu að kæruréttur skapast. Geti kærendur þá gert kröfu um frestun réttaráhrifa meðan kæran er í meðferð hjá nefndinni.

Nefndin bendir einnig á í úrskurði sínum að fyrirhugaðar breytingar hafi ekki verið gerðar og muni ekki verða það fyrr en leyfið liggur fyrir. Því sé ekkert að stöðva.