Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, færði í gær fulltrúum þrettán björgunarsveita Slysavarnafélagsins Landsbjargar nýjar færanlegar rafstöðvar við athöfn í húsakynnum Neyðarlínunnar á Hólmsheiði. Ein stöðvanna fer til Reykhóla.
Áður höfðu 13 sveitir fengið sams konar stöð og meðal þeirra voru sveitirnar á Ísafirði og Patreksfirði.
Í máli ráðherra kom fram að tilgangurinn væri að efla rekstraröryggi í fjarskiptum þegar óveður geysa eða hamfarir verða og tryggja eins og kostur er að hægt verði að hringja eftir aðstoð í neyð og kalla út viðbragðsaðila. Með því að fjölga færanlegum rafstöðvum og staðsetja hjá björgunarsveitum eða slökkviliðum verður hægara að koma rafmagni aftur á þar sem þörf krefur og bæta þannig lífsgæði fólks.
Allt í allt verða rúmlega 30 nýjar færanlegar rafstöðvar tiltækar hjá björgunarsveitum eða slökkviliðum um land allt á þessu ári.
Átak stjórnvalda – tveir áfangar
Tildrög málsins er óveðrið sem gekk yfir landið í desember 2019 og afhjúpaði það marga veikleika í rafmagns- og fjarskiptakerfum landsins. „Ríkisstjórnin var einhuga um átak um við stórefla öryggi í fjarskiptum og samþykkti tillögu mína um 275,5 milljóna kr. fjárveitingu árið 2020 á vegum fjarskiptasjóðs. Fjárveitingin var veitt á grundvelli fjárfestingaátaks stjórnvalda í kjölfar heimsfaraldursins. Tilgangurinn með átakinu hefur verið mjög skýr – að tryggja fjarskiptaöryggi í óveðrum.“ sagði Sigurður Ingi Jóhannsson, samgönguráðherra í ávarpi sínu.
„Við ætlum að tryggja sem best að ef fárviðri geisar aftur eða hamfarir verða sé til staðar varaafl og nægt rafmagn.
Færanlegar rafstöðvar munu þétta öryggisnet fjarskipta um land allt og bætast við net af föstum rafstöðvum um land allt. Afhendingin nú markar upphaf á öðrum áfanga í mikilvægu átaki stjórnvalda um úrbætur á fjarskiptainnviðum.“