Þingeyri: Tankurinn menningarfélag vill 5 m.kr.

Bæjarráð Ísafjarðarbæjar leggur til að veita Tanki menningarfélag á Þingeyri 2,5 m.kr. í aukinn fjárstuðning til verkefnisins Olíutankurinn – Útilistaverk á Þingeyri með því skilyrði að félagið tryggi að verkefnið sé full fjármagnað.

Útilistaverk úr gömlum olíutanki er í undirbúningi á Þingeyri. Hugmyndin var kynnt og samþykkt á íbúaþingi vorið 2018 og er byggð á vinnu japanska arkitektsins Yasuaki Tanago.

Verkefnið er þannig kynnt:

„Tilgangur verkefnisins að tengja með áhrifaríkum hætti olíutank, sem tákn um atvinnusögu fiskiþorpsins, við náttúruupplifun almennings á Þingeyri. Með japanskri hönnun úr endurnýttum olíutanki og grjóthnullungum úr Dýrafirði myndar verkið brú milli ólíkra menningarheima frá fortíð yfir í framtíð. Listaverkið verður í raun fólkvangur opinn allt árið.“

Menningarfélagið Tankur var stofnað í þeim tilgangi að halda utan um framkvæmd og fjármögnun listaverksins. Í stjórn sitja Erna Höskulsdóttir, Wouter Van Hoeymissen og Ketill Berg Magnússon.

Stjórnin sendi bæjarráði erindi í byrjun árs og óskaði eftir breytingum og framlengingu á samningi Tanks menningarfélags við Ísafjarðarbæ, auk aukins fjárstyrks vegna verkefnisins að fjárhæð kr. 5.000.000.

Bæjarstjóra var fali’ að ræða við umsækjanda og leggja málið fyrir bæjarráð á nýjan leik í kjölfarið.