Súðavík: mannabreytingar í sveitarstjórn

Töluverðar breytingar hafa orðið á skipan sveitarstjórnar í Súðavík vegna búferlaflutninga. Steinn Ingi Kjartansson, fyrrverandi oddviti og efsti maður H lista er fluttur til Akraness. Steinn Ingi hefur verið í sveitarstjórn sem aðal- eða varamaður síðan 2014.

Örn Elías Guðmundsson, tónlistarmaður, sem varð aðalmaður í sveitarstjórn vegna brottflutnings Guðbjargar Bergmundsdóttur hjúkrunarfræðingur er fluttur til Ísafjarðar og Elín Birna Gylfadóttir kvikmyndagerðarkona er einnig flutt.

Allar breytingarnar varða H listann sem fékk 3 menn kjörna í hreppsnefnd af fimm. Nú er 6. maður Guðmundur Birgir Ragnarsson orðinn aðalmaður.

Á síðasta fundi sveitarstjórnar sem var fyrir rúmri viku var bókað:

„Sveitarstjórn Súðavíkurhrepps og sveitarstjóri vilja þakka fráfarandi sveitarstjórnarmönnum; Elínu Birnu Bjargardóttur Gylfadóttur, Elíasi Erni Guðmundssyni og Steini Inga Kjartanssyni fyrir störf þeirra í þágu sveitarstjórnar og ánægjulegt samstarf á liðnum árum.
Sveitarstjórn og sveitarstjóri vilja jafnframt óska þeim og fjölskyldum þeirra velfarnaðar á nýjum vettvangi.“

DEILA