Í kvöld, fimmtudagskvöldið, 4. febrúar, á alþjóðadegi gegn krabbameinum, verður Kraftur með söfnunar- og skemmtiþáttinn „Lífið er núna“ í beinni útsendingu á Sjónvarpi Símans, K100 og í netstreymi á www.mbl.is.
Kraftur hefur fengið landsþekkta skemmtikrafta og tónlistarfólk í lið með sér til að skemmta áhorfendum og eru það engin önnur en GDRN, Valdimar, Ari Eldjárn, Sigríður Thorlacius og Páll Óskar sem munu stíga á stokk. Sóli Hólm og Sóley Kristjánsdóttir verða kynnar kvöldsins og munu þau einnig fá gott fólk í sófann til sín til að spjalla um málefni ungs fólks sem greinst hefur með krabbamein og aðstandenda.
„Þátturinn verður skemmtiþáttur en um leið söfnunarþáttur,“ segir Hulda Hjálmarsdóttir, framkvæmdastjóri Krafts. „Það skiptir okkur í Krafti miklu máli að njóta augnabliksins og ætlum við að bjóða landsmönnum að njóta með okkur fyrir framan sjónvarpsskjáinn fimmtudaginn næstkomandi ásamt því að kynna þeim starf félagsins. Við höfum fengið frábæra listamenn með okkur í lið og er ég viss um að allir munu geta notið stundarinnar með okkur,“ segir Hulda enn fremur.
Um 70 ungir einstaklingar greinast með krabbamein á hverju ári og þegar fólk greinist með krabbamein hefur það ekki einungis áhrif á það heldur fjölmarga í kring þar á meðal maka, foreldra, börn, vini, vandamenn og jafnvel vinnufélaga.
Áhorfendur þáttarins geta lagt Krafti lið með því að kaupa húfur til styrkar félaginu, hringja inn í símaver og gerast mánaðarlegir styrktaraðilar eða gefa stakan styrk en einnig er hægt að senda SMS með skilaboðunum Kraftur í símanúmerið 1900 og renna þá 2500 krónur til Krafts af næsta símreikningi.