Sitthvað um snjómokstur

Snjómokstur í byggðakjörnum Ísafjarðarbæjar hefur verið í höndum verktaka í allmörg ár og hefur það gefist vel, undantekningin á því er Skutulsfjörður. Þar hefur snjómokstri verið sinnt af Áhaldahúsi alla virka daga á dagtíma og fram til hádegis á föstudögum. Samhliða hafa verktakar sinnt snjómokstri í Skutulsfirði og auk þess utan þess tíma sem Áhaldahúsið hefur sinnt snjómokstrinum þ.e. eftir hádegi á föstudögum og um helgar. Tæki Áhaldahússins eru komin til ára sinna og endurnýjun þeirra hefði kostað tugi eða hundruði milljóna króna. Fyrirkomulag á snjómokstri í Skutulsfirði hefur verið óhagstætt og fyrirsjáanlegar fjárfestingar í endurnýjun tækja yrði mjög kostnaðarsöm fyrir bæjarsjóð.

Í ljósi þessa þótti skynsamlegt að bjóða þessa starfsemi út og koma henni í sama fyrirkomulag og hefur verið viðhaft í öðrum byggðakjörnum Ísafjarðarbæjar. Bæjarstjórn samþykkti á fundi sínum þann 7. janúar s.l. að ganga til samninga við verktaka um snjómokstur í Skutulsfirði á grundvelli tilboða sem bárust í útboði á þjónustunni.

Það segir sig sjálft og þarf varla að koma einhverjum á óvart að úthýsing á þessari þjónustu þýðir að hagræða þarf í mannahaldi í Áhaldahúsi. Það þætti ekki skynsamleg ráðstöfun á fjármagni hjá útgerð sem selur sínar veiðiheimildir að binda skipið við bryggju og hafa alla áhöfnina á fullum launum í landi. Eða hvað?

Útfærslan að hagræðingu í Áhaldahúsi er að sjálfsögðu í höndum til þess bærra embættismanna bæjarins. Einstök starfsmannamál eru ekki tekin fyrir á vettvangi bæjarstjórnar enda hafa mannaforráð verið framseld til bæjarstjóra og eftir atvikum annarra starfsmanna. Uppsagnir starfsmanna er eitthvað sem allir myndu vilja komast hjá en stundum er það ekki umflúið og þannig var það í þessu tilviki. Þar skiptir mestu máli að málið sé nálgast faglega og af virðingu við þá starfsmenn sem í hlut eiga og að þeir séu þeir fyrstu sem fá upplýsingarnar. Þetta tókst í þessu tilviki og sýndu starfsmenn skilning á þessum uppsögnum í ljósi stöðunnar.

Okkur ber að fara vel með það fé sem okkur er treyst fyrir og í þessu tilviki væri það ekki skynsamleg ráðstöfun á fé að úthýsa verkefni en sitja áfram uppi með kostnaðinn. Það hljóta allir að vera sammála um það.

Birgir Gunnarsson bæjarstjóri