Frá landsþingi Sambands íslenskra sveitarfélaga í desember hefur hópur minni sveitarfélaga unnið að mótun tillögu sem gæti komið í stað íbúalágmarks sem ríkisstjórnin leggur til við Alþingi að verði sett. Jafnframt hefur hópurinn horft til leiða sem sveitarfélög gætu sameinast um á vettvangi Sambandsins, þannig að það megi betur gegna sínu hlutverki sem sameiginlegur málsvari sveitarfélaga, eins og segir í fréttatilkynningu frá hópnum.
Að tillögunni standa 20 sveitarfélög sem öll hafa færri íbúa en 1000 og leggjast gegn tillögunni um lögþvingaða sameiningu á næsta ári og 2026. Djúpstæður ágreiningur er um málin og var kosið um sameiningaráformin á landsþinginu. Voru þau samþykkt með naumum meirihluta atkvæða 67 gegn 54.
Hefur tillaga minni sveitarfélaga verið send til Umhverfis- og samgöngunefndar Alþingis sem fjallar um framkomið lagafrumvarp ríkisstjórnarinnar. Tillagan var unnin eftir samráð við stjórn sambands íslenskra sveitarfélaga og segir i fréttatilkynningunni að vonast sé til að hún hljóti góðan stuðning og hægt verði að ljúka þessu máli í góðri sátt Alþingis og sveitarfélagastigsins.
„Tillagan byggir á grunngildum okkar um lýðræði og sjálfstjórnarrétt sveitarfélaga. Hún er í góðum takti við meginsjónarmið í stefnumótandi áætlun um eflingu sveitarfélaga, sem samþykkt var á Aþingi á liðnu ári, einkum um lýðræði, sjálfstjórnarrétt og sjálfbærni sveitarfélaga. Hún er einnig í góðu samhengi við sveitarstjórnarlög og fellur vel að þeim lagaramma sem fyrir er um sveitarfélög. Það er okkar sannfæring að þessi tillaga muni betur vinna að eflingu sveitarfélaga en íbúalágmark, enda íbúar best til þess fallnir að meta hagsmuni á sínu svæði og bera ábyrgð á þróun sinna sveitarfélaga.“
Umræða og viðræður
Í tillögu minni sveitarfélaganna er gert ráð fyrir að skylt verði að loknum sveitarstjórnarkosningum og eigi síðar en 6 mánuðum eftir þær, að taka til umræðu og meta hvort ástæða sé til að sveitarfélagið sameinist öðru eða öðrum sveitarfélögum.
Sé það mat sveitarstjórnar að rétt sé að skoða sameiningu við annað eða önnur sveitarfélög hefst viðræðuferill. Sveitarstjórn skal kynna niðurstöðu almennrar umræðu fyrir íbúum, að lágmarki með bókun í fundargerð sem birt er á heimasíðu sveitarfélagsins.
Telji sveitarstjórn ekki þörf fyrir sameiningarumræða geta 15% íbúa óskað eftir því að sameiningarkostir verði metnir og haldin íbúakosning um þá.
Sértæk umræða
Ef tveir eða fleiri af eftirtöldum þáttum eiga við, þegar horft er til síðustu fjögurra ára, skal sveitarstjórn hafa sértæka umræðu. Sveitarstjórn skal þá leitast við að greina orsakir fyrir slæmri þróun, rýna í horfur til næstu ára og meta hvort meiri líkur séu á farsælli þróun með sameiningu við annað eða önnur sveitarfélög. Sérstaklega skal metið hvort þróunin er umtalsverð og viðvarandi, hvort um sérstakar ástæður er að ræða sem sér fyrir endann á, eða óveruleg frávik sem í engu ógni framtíð sveitarfélagsins.
Þættirnir eru:
- Sveitarfélagið hefur ekki náð að standast fjárhagsleg viðmið í lögum, s.s. um skuldaviðmið og/eða jafnvægisreglu.
- Skuldahlutfall er hátt miðað við sambærileg sveitarfélög og hefur farið hækkandi.
- Íbúatala hefur farið lækkandi.
- Framlög Jöfnunarsjóðs sem hlutfall af tekjum eru há miðað við sambærileg sveitarfélög og hafa farið hækkandi.
Ákveði sveitarstjórn eftir sértæka umræðu að ekki sé ástæða til að hefja viðræðuferil um sameiningu, skal hún rökstyðja það álit sitt og senda til ráðuneytis sveitarstjórnarmála. Ráðuneytið fer yfir mat sveitarstjórnar og getur eftir atvikum gefið álit sitt og sent sveitarstjórn. Telji ráðuneytið ástæðu til að fylgja málinu frekar eftir, færist það á borð eftirlitsnefndar með fjármálum sveitarfélaga og vinnur nefndin þá að því eftirleiðis í samræmi við hlutverk sitt og starfsreglur.