Sala Hlífar 1 sett á ís

Meirihluti bæjarstjórnar Ísafjarðarbæjar samþykkti á fundi sínum á fimmtudaginn að setja áform um sölu íbúða á Hlíf á ís. Segir í samþykkt meirihlutans að ljóst sé að áformin hafi valdið nokkrum titringi og því mikilvægt að staldra við. Ekki hafi verið ætlunin að valda íbúum áhyggjum. Minnt er á að þrátt fyrir söluhugleiðingar sveitarfélagsins hafi ætlunin verið að tryggja áfram búsetu íbúa og halda þjónustu sveitarfélagsins óbreyttri í húsinu. Markmiðið með sölunni var að lækka skuldir svo að hægt sé að sækja fram og bæta þjónustu, m.a. við eldri borgara.

Fram kom í umræðum um málið hjá forseta bæjarstjórnar Kristjáni Þór Kristjánssyni (B) að hans skilningur væri sá að með þessu væri málið tekið af dagskrá út kjörtímabilið.

Bæjarfulltrúar Í-listans sátu hjá við atkvæðagreiðsluna.

Bókun Í listans

Bæjarfulltrúar Í-lista lögðu fram eftirfarandi bókun:
„Bæjarfulltrúar Í-listans telja tillögu fulltrúa Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks um að setja áform um sölu íbúa á Hlíf 1 á ís gangi ekki nógu langt. Málið hefur valdið mikilli ólgu og reiði meðal íbúa á Hlíf 1 og annarra íbúa sveitarfélagsins, og rétt væri að falla alveg frá áformum um sölu íbúðanna. Hafi fulltrúar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks hug á því að selja þessar íbúðir í framtíðinni væri hreinlegra gagnvart íbúum að setja það á stefnuskrá sína svo íbúar viti fyrir hvað þessir flokkar standa þegar gengið er til bæjarstjórnarkosninga. Afstaða bæjarfulltrúa Í-listans er alveg skýr. Það á ekki að selja íbúðir á Hlíf 1, sem var að hluta byggð fyrir gjafafé frá einstaklingum og félagasamtökum og ekki ætlaðar til endursölu. Með eignarhaldi sínu á íbúðum á Hlíf 1 getur bærinn tryggt aðgengi aldraðs fólks í brýnni þörf að öruggu húsnæði á viðráðanlegu verði. Sú trygging er úr sögunni sé húsnæðið selt til ótengds félags á markaði, hvað sem líður fyrirheitum og væntingum um annað.“

DEILA