Reykhólar: vilja valkostagreiningu vegna jarðgangaáætlunar

Sveitarstjórn Reykhólahrepps leggur til að gerð verði valkostagreining með
félagshagfræðilegri greiningu á áhrifum samgöngubóta á byggðakjarna og atvinnusvæði á öllum Vestfjörðum.

Í bókun sveitarstjórnar segir að nauðsynlegt sé að leita fjölþættra lausna í samgöngumálum þar sem samgöngukerfið á Vestfjörðum hafi verið fjársvelt áratugum saman. „Ekki er unnt að bíða eftir jarðgöngum í áratugi án þess að nokkrar endurbætur eigi sér stað á meðan.“ segir að lokum.

Fyrir sveitarstjórnina var lögð fram frá Vestfjarðastofu samantekt um jarðgöng á Vestfjörðum, samráð um forgangsröðun, þar sem óskað var tillagna sveitarstjórnar Reykhólahrepps að forgangsröðun inn í samráðsvettvang sveitarfélaganna á Vestfjörðum.