Ófriður á Bíldudal

Bíldudalur

Lögreglan á Vestfjörðum var á sunnudagskvöld kölluð að íbúðarhúsi á Bíldudal þar sem átök höfðu átt sér stað.

Þegar lögreglu bar að var þar maður með áverka og skerta meðvitund. Annar karlmaður var á staðnum og var hann handtekinn og færður í fangageymslu á Patreksfirði, grunaður um að hafa verið valdur að árásinni.

Sá sem fyrir árásinni varð var fluttur með þyrlu LHG á sjúkrahús í Reykjavík. Hann reyndist síðar ekki með alvarlega áverka.

Árásaraðilanum var sleppt lausum daginn eftir, mánudaginn 15. febrúar, eftir yfirheyrslu.

Síðar sama dag var lögreglan aftur kölluð að sama húsi á Bíldudal vegna tilkynningar um að sami árásaraðili hafi ógnað tveimur aðilum með hnífi.

Lögreglan fór á vettvang og yfirbugaði manninn og færði aftur í fangaklefa á Patreksfirði.

Einnig var kona handtekin á staðnum, en hún hafði veist að lögreglunni og reynt að hindra handtöku árásaraðilans. Bæði sátu þau í fangageymslu lögreglunnar þar til daginn eftir. Þeim var sleppt lausum að yfirheyrslu lokinni. Þau munu hafa bæði hafa verið við vinnu á Bíldudal.

Mál fólksins er enn til rannsóknar hjá lögreglunni á Vestfjörðum.

DEILA