Mennta- og menningarmálaráðherra hefur gefið út nýja reglugerð um vinnustaðanám sem felur í sér grundvallarbreytingu í þjónustu við nemendur. Reglugerðin mun taka gildi 1. ágúst n.k.
Fram til þessa hafa nemar í starfsnámi verið sjálfir ábyrgir fyrir því að komast á námssamning, en með nýju reglugerðinni færist ábyrgðin á þessum námsþætti frá nemanum og yfir á skólana sjálfa.
Skólarnir bera ábyrgð á að finna vinnustað þar sem neminn fær leiðsögn og æfingu við raunaðstæður.
Önnur breyting er sú að ef ekki tekst að koma nema á samning tekur svokölluð skólaleið við þar sem skólinn þarf að sjá til þess að neminn fái nauðsynlega þjálfun jafnvel á fleiri en einum vinnustað.
Þriðja breytingin er sú að horft verður til hæfni nemans við ákvörðun um lengd vinnustaðanáms.
Skilgreindir hafa verið hæfniþættir fyrir hverja námsgrein og þarf nemi að ná tökum á þeim handbrögðum sem þar eru tilgreind. Vinnustaðanámið verður því mun markvissara en verið hefur og nemar hafa tök á því að útskrifast fyrr en áður.