Náttúra og friðsæld best á sunnanverðum Vestfjörðum

Birt hefur verið Íbúakönnun 2020: Íbúar og mikilvægi búsetuskilyrða. Þar er kannaður hugur íbúa til búsetuskilyrða, aðstæðna á vinnumarkaði og afstöðu til nokkurra mikilvægra atriða, s.s. hamingju og hvort íbúar séu á förum frá landshlutanum. Könnunin var framkvæmd 2016/2017 og endurtekin í september og október 2020.

Samkæmt könnunni þá eru náttúra, þ.e. nálægð við fjölbreytta náttúru og friðsæld best þegar kemur að sunnanverðum Vestfjörðum. Þá sýna niðurstöður könnunarinnar að loftgæði og öryggi er gott hjá okkur, ásamt mannlífi og atvinnuöryggi. Í könnunni var ekki marktækur munur á milli svæða þegar kom að hamingju. Ekki er að merkja af könnunni að íbúar séu á förum af svæðinu, enda sýna íbúatölur að veruleg íbúafjölgun hefur orðið hjá okkur, en íbúar í Vesturbyggð eru í dag 1.076 talsins.

Það er einnig ánægjulegt að sjá að leikskólar á sunnanverðum Vestfjörðum batna mest að gæðum á milli kannana sem og að gæði grunnskóla, tónlistarskóla og unglingastarfs á svæðinu batnar einnig milli kannana. Vesturbyggð er ákaflega stolt af öllu því öfluga starfi sem fram fer í skólastofnunum sveitarfélagsins og ánægjulegt að sjá það endurspeglast í niðurstöðum könnunarinnar.

Samkvæmt könnunni þá er framboð á íbúðarhúsnæði til leigu lítið. Það hefur verið verkefni sem m.a. Vesturbyggð hefur lagt ríka áherslu á að bæta, þannig að aðstæður á svæðinu séu með þeim hætti að hentugt sé að byggja nýtt leiguhúsnæði, m.a. í samvinnu við Húsnæðis- og mannvirkjastofnun og byggingaaðila. Þá gerir endurskoðun aðalskipulags ráð fyrir nýjum íbúðasvæðum, með það að markmiði að fjölga íbúðum í sveitarfélaginu enn frekar, en Húsnæðisáætlun Vesturbyggðar 2020-2028 gerir ráð fyrir að um 100 íbúðir vanti á svæðið til að bregðast við aukinni íbúafjölgun. Á þessu ári er áætlað að hafist verði handa við byggingu 14 nýrra íbúða í Vesturbyggð.

Það kemur vart íbúum á sunnanverðum Vestfjörðum á óvart að vegakerfið á svæðinu komi verst út í könnunni, var sama niðurstaða í könnunni 2016/2017. Ýmsir vegkaflar innan sveitarfélagsins hafa verið metnir ónýtir og verulega hefur skort fullnægjandi framkvæmdafé inn á svæðið fyrir Vegagerðina til að viðhalda og byggja upp vegi á sunnanverðum Vestfjörðum. Hafa þessir mikilvægu innviðir á ábyrgð ríkisins verið sveltir um áratugaskeið og er vart að finna jafn alvarlega stöðu á landinu og nú er uppi á sunnanverðum Vestfjörðum. Niðurstöður þessarar könnunar endurspegla þetta vel og sýna enn og aftur mikilvægi þess að innviðir eins og vegakerfið séu í lagi, svo búsetuskilyrði geti í besta falli talist eðlileg. Aðrir þættir sem versna milli kannana er dvalarheimili aldraðra, en slíkt er ekki starfrækt á sunnanverðum Vestfjörðum en Vesturbyggð vinnur nú að því með Heilbrigðisstofnun Vestfjarða og Heilbrigðisráðuneytinu að endurnýja hjúkrunarrými við Heilbrigðisstofnun Vestfjarða á Patreksfirði. Þá versnar þjónusta við fatlað fólk á milli ára, en sunnanverðir Vestfirðir sinna þeirri þjónustu í gegnum Byggðasamlag Vestfirðinga í málefnum fatlaðs fólks og skv. könnunni koma svæðin á Vestfjörðum mjög mismunandi út þegar kemur að þessu búsetuskilyrði skv. könnunni.

Aðrir þættir í niðurstöðu könnunarinnar verða mikilvægt gagn inn í frekari stefnumótun Vesturbyggðar og þær nýttar til að skapa þá hvata sem til þarf til að bæta og auka búsetuskilyrði enn frekar í sveitarfélaginu. Gott mannlíf og bjartsýni einkennir íbúa í Vesturbyggð og alltaf er að bætast í þann öfluga hóp. Búsetuskilyrðum á sunnanverðum Vestfjörðum og þeim drifkröftum sem þeim fylgja, ber okkur öllum sem íbúar sunnanverðum Vestfjörðum að hlúa að og efla enn frekar til að samfélagið okkar blómstri og dafni.

Rebekka Hilmarsdóttir, bæjarstjóri í Vesturbyggð

DEILA