Metár í fiskeldi – 29 milljarðar króna í fyrra

Fiskeldið náði á síðasta ári að framleiða meira og afla meiri gjaldeyristekna en hún hefur nokkurn tímann áður gert. Var fiskeldi ein fárra útflutningsgreina sem var í vexti á árinu 2020 og hefur vægi greinarinnar í útflutningstekjum þjóðarbúsins aldrei verið meira. Útflutningsverðmæti eldisafurða var um 11% af útflutningsverðmætum sjávarafurða á árinu og tæp 5% sé tekið mið af verðmæti vöruútflutnings í heild.

Þetta kemur fram í fréttabréfi Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi.

Meiri verðmæti í desember en áætlað var

Útflutningsverðmæti eldisafurða reyndust rétt tæpir 4,0 milljarðar króna í desember. Þetta er stærsti mánuður frá upphafi og var útflutningsverðmæti eldisafurða á árinu 2020 í heild þar með 29,3 milljarðar króna.

Í krónum talið jókst útflutningsverðmæti eldisafurða um rúm 17% á milli ára en vegna lækkunar á gengi krónunnar var aukningin í erlendri mynt ívið minni, eða tæp 6%. Áhrifin af COVID-19 voru hvað sýnilegust á afurðaverð sem var rúmlega 5% lægra að jafnaði í erlendri mynt á árinu 2020 en árið 2019. Aukin framleiðsla náði því að vega upp lægra verð. Þetta má sjá í tölum sem Hagstofan birti á föstudag.

 

 

 

 

DEILA