Merkir Íslendingar – Gylfi Þ. Gíslason

Gylfi Þ. Gíslason, fæddist í Reykjavík þann 7. febrúar 1917.  Gylfi var sonur hjónanna Þorsteins Gíslasonar skálds og ritstjóra og Þórunnar Pálsdóttur konu hans. Systkini Gylfa voru Vilhjálmur útvarpsstjóri, Ingi kennari, Nanna verslunarmaður, Baldur verslunarmaður og Freyr verslunarmaður, og var Gylfi þeirra yngstur.

Eiginkona Gylfa var Guðrún Vilmundardóttir fædd 7. desember 1918, dáin 15. ágúst 2010. Foreldrar hennar voru Vilmundur Jónsson læknir á Ísafirði og alþingismaður og kona hans Kristín Ólafsdóttir. Gylfi og Guðrún gengu í hjónaband 1939 og bjuggu í Garðastræti 13a í Reykjavík til 1948 og fluttu þá á Aragötu 11. Þau eignuðust þrjá syni, Þorstein, Vilmund og Þorvald. 

Gylfi ólst upp í foreldrahúsum í Þingholtsstræti 17 í Reykjavík og lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík 1936, kandidatsprófi í rekstrarhagfræði frá Háskólanum í Frankfurt 1939 og doktorsprófi í þjóðhagfræði frá sama skóla 1954. Hann stundaði einnig háskólanám í Vín 1937-38, Danmörku, Sviss og Bretlandi 1946, Bandaríkjunum 1952 og loks í Þýskalandi 1954.

Gylfi var hagfræðingur í Landsbanka Íslands 1939-40, hafði verið sumarstarfsmaður þar á námsárunum, og hann var einnig stundakennari í Viðskiptaháskóla Íslands þennan sama vetur og dósent þar 1940-41. Hann var stundakennari í Menntaskólanum í Reykjavík 1939-56 að einu ári undanskildu. Hann var dósent í Háskóla Íslands 1941-46 og prófessor í sama skóla 1946-56 og 1972-87.

Gylfi var þingmaður Alþýðuflokksins 1946-78, menntamálaráðherra 1956-71, iðnaðarráðherra 1956-58 og viðskiptaráðherra 1958-71. Hann gegndi fjölmörgum trúnaðarstörfum fyrir Alþýðuflokkinn og var formaður hans 1968-74. Hann var forseti sameinaðs Alþingis 1974.

Gylfi var formaður Hagfræðingafélags Íslands 1951-59 og sat í Þjóðleikhúsráði 1954-87. Hann sat einnig í stjórn Tjarnarbíós, síðar Háskólabíós, 1949-70 og í stjórn Almenna bókafélagsins 1961-92. Þá var hann fulltrúi Íslands í stjórn Alþjóðagjaldeyrissjóðsins 1956-65 og Alþjóðabankans 1965-71. Hann var formaður Rannsóknarráðs ríkisins 1965-71 og sat í Norðurlandaráði 1971-78 og var formaður menningarmálanefndar ráðsins þau ár. Hann var einnig formaður Norræna félagsins 1984-91 og sat í stjórn Norræna hússins 1984-93.

Gylfi skrifaði mikið um hagfræðileg efni og stjórnmál, og eftir hann liggja margar bækur um þau efni, þar á meðal kennslubækur um rekstrarhagfræði, fiskihagfræði, bókfærslu og þjóðhagfræði. Meðal annarra bóka hans eru Marshalláætlunin (1948), Jafnaðarstefnan (1977), Viðreisnarárin (1997) og Vegsemd þess og vandi að vera Íslendingur (1994), og hefur sú bók einnig birst á ensku og þýsku. Hann skrifaði einnig fjölda ritgerða og greina, sem birst hafa í tímaritum og bókum innan lands og utan, og hélt ýmsar tækifærisræður, og birtist úrval þeirra í ritgerðasafninu Hagsæld, tími og hamingja (1987) og í ræðusafninu Minni um nokkra íslenska listamenn (2003).

Gylfi samdi sönglög frá unglingsárum fram yfir miðjan aldur, og hafa mörg þeirra birst á hljómplötum og diskum í flutningi ýmissa listamanna og einnig verið gefin út á prenti.

Gylfi Þ. Gíslason lést þann 18. ágúst 2004.
 Skráð af Menningar-Bakki.