Melrakki (Vulpes lagopus)

Melrakkinn er algengur og útbreiddur víða umhverfis norðurheimskautið en fágætur í Skandinavíu.
Á Íslandi eru melrakkar útbreiddir á hálendi og láglendi um allt land.
Þéttleiki er mestur á Vestfjörðum, sérstaklega við fuglabjörg, en einnig við gjöfular rekastrendur.
Minnstur þéttleiki er á sendnum svæðum og berangri þar sem lítið er um bráð.

Íslenski refastofninn sker sig frá öðrum stofnum tegundarinnar þar sem hann er ekki tengdur með landi eða hafís.

Stofnstærð var í sögulegu lágmarki rétt fyrir 1980, um 1.200 dýr, en óx uppfrá því og var metin tæp 8.000 dýr að haustlagi árið 2000 og ríflega 11.000 dýr árin 2005–2008.

Eftir það féll stofninn og var komin niður í 6.000 dýr árið 2011 en var nokkuð stöðugur og metinn um 6.500 dýr að jafnaði árin 2011–2015

Refir eru rándýr og á matseðlinum hérlendis eru m.a. fuglar, egg, hagamýs og ýmiskonar hryggleysingjar.

Þeir eru ekki matvandir og neyta alls þess sem ætilegt getur talist, þar á meðal gömul dýrahræ sem þeir hafa safnað og grafið sem forða.

Tófan er smávaxinn refur og eru íslenskir steggir að meðaltali um 58 cm að lengd og 3,6–4,3 kg að þyngd en læður að meðaltali 55 cm langar og vega 3,2–3,7 kg.
Á Íslandi eignast tófur fremur stóra yrðlinga; við got eru þeir um 80 g og þeir geta náð fullri stærð á fjórum mánuðum.

Refir verða kynþroska á fyrsta vetri, fengitíminn í er í mars og flestir yrðlingar fæðast í seinnihluta maí.
Einkvæni er ríkjandi og parið heldur saman meðan bæði lifa (hámarksævilengd á Íslandi er 12 ár).
Melrakkar eru annað hvort hvítir eða mórauðir en einnig eru til dýr sem eru ljósmórauð (bleik) en slíkt er sjaldgæft.
Mórauði liturinn er algengari en sá hvíti á strandsvæðum.

Á Vestfjörðum er hlutfall þeirra allt að 80% en hvítum refum fer hlutfallslega fjölgandi eftir því sem austar dregur.
Hvítir melrakkar eru næstum alhvítir að vetri en að sumarlagi eru þeir tvílitir, grábrúnir á baki og ljósir á kvið. Langflestir melrakkar í heiminum eru hvítir (98%) en á Íslandi eru aðeins um 30% refa af hvíta litarafbrigðinu.

DEILA