Landsmenn misjafnlega hamingjusamir

Landshlutasamtök sveitarfélaga á landinu ásamt Byggðastofnun hafa staðið fyrir  skoðanakönnun meðal íbúa landsins á búsetuskilyrðum, hamingju og viðhorfi til síns sveitarfélags.

Í könnuninni var landinu skipt upp í 24 svæði og annaðist Rannsóknamiðstöð Háskólans á Akureyri gerð úrtaks. Að könnuninni og úrvinnslu niðurstaðna unnu Vífill Karlsson, hagfræðingur og ráðgjafi hjá Samtökum sveitarfélaga á Vesturlandi og Helga María Pétursdóttir, hagfræðingur og ráðgjafi hjá Samtökum sveitarfélaga á Norðurlandi eystra. Könnunin byggir á hliðstæðri íbúakönnun sem gerð var árið 2017 en könnunin nú var mun viðameiri, auk þess sem fyrri könnun náði ekki til allra svæða landsins.

Niðurstöðurnar byggja á svörum frá 10.253 þátttakendum. Þetta er í fyrsta sinn sem svo víðtæk könnun um þessi efni nær til allra svæða landsins og er markmiðið að hún verði eftirleiðis gerð á 2-3 ára fresti og geti verið sveitarfélögum og stjórnvöldum mikilvægt tæki í búsetu- og byggðaþróun.

Vestmannaeyjar, Akureyri og Eyjafjörður eru þau svæði sem best koma út í heildarstigagjöf.

Heildareinkunn var lægst í Dölum og á sunnanverðum Vestfjörðum. Í samanburði við önnur búsetusvæði landsins fá íþróttir (tækifæri til íþrótta/tómstundaiðkunar), umferðaröryggi og vöruverð lægsta einkunn í Dölum.

Þessi tvö svæði gefa einnig almenningssamgöngum lága einkunn í samanburði við önnur svæði, sem og farsímasambandi, þjónustu við fatlaða og vegakerfinu. Dalamenn reyndust einnig óánægðastir þeirra sem könnunin náði til með vöruverð, umferðaröryggi, mannlíf og laun.

Stærsti hópur þátttakenda mat hamingju sína 8 á skalanum 1-10. Lítill munur mældist á hamingju íbúa eftir landsvæðum en íbúar í Vestmannaeyjum og Snæfellsbæ reyndust þó hamingjusamastir og marktækt hamingjusamari en á öðrum svæðum landsins. Íbúar höfuðborgarsvæðisins og Reykjanesbæjar voru hins vegar marktækt óhamingjusamari en aðrir í könnuninni.

DEILA