Birgir Gunnarsson, bæjarstjóri hefur lagt fram minnisblað fyrir bæjarráð þar sem leitað er eftir heimild bæjarstjórnar til þess að hefja söluferli á allt að 22 af þeim 26 íbúðum sem eru í eigu Ísafjarðarbæjar á Hlíf 1. Jafnfram er áformað að innrétta þrjár íbúðir til viðbótar á efstu hæð hússins og er óskað eftir heimild til þess að selja þær einnig.
Bæjarráð fól bæjarstjóra að vinna málið áfram. Það þýðir væntanlega að heimildin hefur á þessu stigi ekki verið afgreidd.
Í minnisblaðinu segir að mögulegt væri líka að selja allar íbúðirnar og leigja íbúðir m.v. þörf hverju sinni fyrir þá skjólstæðinga sem þess þurfa.
„Með hagsmuni Ísafjarðarbæjar að leiðarljósi er æskilegt að losa um þessar eignir og minnka þannig efnahagsreikning sveitarfélagsins. Með því að binda fjármuni í hátt í 30 íbúðum á Hlíf 1 þá hamlar það frekari þátttöku sveitarfélagsins í uppbyggingu húsnæðis fyrir aldraðra en með því að losa um þessar eignir opnast tækifæri til frekari þátttöku í þessháttar verkefnum.“ segir bæjarstjóri í minnisblaðinu.
Birgir Gunnarsson, bæjarstjóri segir ennfremur að hann telji „mikilvægt að haft verði að leiðarljósi að selja eignasafnið í heilu lagi og samhliða sölunni verði núverandi íbúum tryggð áframhaldandi búseta í íbúðunum. Með þessari nálgun þ.e. að selja eignasafnið í heilu lagi verður betur hægt að tryggja þessa hagsmuni núverandi íbúa.“
Áformin voru kynnt íbúum á Hlíf 1 í gær með bréfi þar segir segir:
„Ísafjarðarbæjar er með til skoðunar að undirbúa söluferli á íbúðum í eigu bæjarins á Hlíf 1. Í söluferlinu verður passað upp á hagsmuni núverandi leigutaka og leitast við að þetta hafi sem minnst áhrif á þá. Jafnframt að búseta þeirra verði tryggð áfram í viðkomandi íbúðum. Málið verður rætt í bæjarstjórn á næstunni og þegar liggja fyrir nánari upplýsingar um söluna þá verða íbúar upplýstir um næstu skref í málinu.“
Létta á skuldastöðu
Daníel Jakobsson, formaður bæjarráðs segir í svari við fyrirspurn Bæjarins besta að hugmyndin með sölu íbúða bæjarins á Hlíf sé fyrst og fremst sú að létta á skuldastöðu bæjarins „svo hægt sé að sækja fram á öðrum sviðum og jafnvel gera okkur betur í stakk búin til að koma að byggingu fleiri íbúða fyrir eldri borgara og aðra hópa þegar fram í sækir.
kvöð um leiguverð
Það eru margir aðilar betur til þess fallnir að leigja út íbúðir en bærinn. Okkur finnst hinsvegar mjög mikilvægt að hér sé möguleiki á leiguíbúðum og því er hugmyndin að reyna að selja þær allar í einu lagi og helst til óhagnaðardrifins leigufélaga með kvöð um að leiguverð hækki ekki umfram það sem að eðlilegt getur talist.“
Andstaða í bæjarráði
Arna Lára Jónsdóttir fulltrúi Í-listans í bæjarrráði leggst gegn því að íbúðir á Hlíf 1 verði seldar til þess fjármagna byggingu fótboltahúss eins og bókað er í fundargerð bæjarráðs. „Með því að íbúðir á Hlíf verði seldar þá getur velferðarsvið síður haft áhrif á biðlista og komið forgangshópum að sem eru í brýnni þörf fyrir húsnæði sem er sérbúið fyrir eldri borgara. Eignarhald utanaðkomandi aðila er til þess fallið flækja mál er viðkoma íbúðum á Hlíf.“
Arna Lára lýsti hins vegar yfir stuðningi við hugmyndina um að útbúa íbúðir á efstu hæð Hlífar 1 og segir það skynsamlega leið til að fjölga íbúðum með góðu aðgengi fyrir eldri borgara.