Áform um útboð á vetrarþjónustu sem Þjónustumiðstöð Ísafjarðarbæjar í Skutulfirði hefur annast hafa verið á borðum bæjarfulltrúa síðan snemma á síðasta ári og hafa tvisvar verið auglýst.
Í maíbyrjun er Snjómokstur Ísafirði og Hnífsdal, útboð rætt í bæjarráði og bókað: „Kynnt drög að útboði frá Axel R. Överby, sviðsstjóra umhverfis- og eignasviðs, dags. 30. apríl sl., vegna vetrarþjónustu í Skutulsfirði og Hnífsdal.“ Málið er lagt fram til kynningar en niðurstaða fundarins er þessi samkvæmt fundargerðinni: „Bæjarráð felur Axel R. Överby, sviðsstjóra umhverfis- og eignasviðs að gera breytingar í samræmi við umræður, áður en verkið verður boðið út.“
Snjómoksturinn var svo auglýstur seint í júlí þegar bæjarstjórnin var í sumarfríi. Sigurður Jón Hreinsson, bæjarfulltrúi brást við með grein sem birtist á bb.is þann 3. ágúst. Þar mótmælti hann útboðinu og taldi bókunina á bæjarráðsfundinum 4. maí ekki vera nægjanlega ákvörðun fyrir útboðinu auk þess sem breytingar á útboðsgögnum frá því sem kynnt var væru svo miklar að þær væru meiri en nokkur bæjarráðsmaður hefði nefnt.
Fór svo að málið var lagt aftur fyrir bæjarráð og bæjarstjórn og var útboð samþykkt á bæjarstjórnarfundi 26. nóvember 2020 á grundvelli uppfærðra útboðsgagna sem höfðu verið lögð fram í bæjarráð áður og lágu fyrir.
Ágreiningur var um afgreiðslu tillögurnnar. Meirhlutafulltrúarnir samþykktu útboðið en Í listinn greiddi atkvæði gegn útboði. Fór atkvæðagreiðslan 5:4.
Í listinn lagði til að „vísa útboðsgögnum aftur til vinnslu umhverfis- og eignasviðs þar sem útboðsgögn verði unnin á þann hátt að gert sé ráð fyrir aðkomu áhaldahúss við mokstur og að mokstur göngustíga á Ísafirði verði inni í útboðsgögnum.“ en sú tillaga var felld 5:4.
Ekki verður séð í fundargerðum varðandi málið að rætt hafi verið um uppsagnir starfsmanna Þjónustumiðstöðvarinnar vegna þessara breytinga, en telja verður að fyrir hafi legið að starfsmönnum yrði fækkað í framhaldinu.
Það er svo önnur spurning hvort bæjarstjórn eigi að taka þá ákvörðun eða að bæjarstjóri hafi almenna heimild til uppsagna án aðkomu kjörinna fulltrúa.
-k