Bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar staðfesti á fundi sínum á fimmtudaginn tveggja ára samning við Kómedíuleikhúsið fyrir árin 2021 og 2022.
Markmið samningsins er að efla og glæða áhuga bæjarbúa á leiklist og auðga menningarlíf í Ísafjarðarbæ, auk þess að styrkja eina atvinnuleikhús Vestfjarða.
Ísafjarðarbær greiðir styrk til Kómedíuleikhússins að fjárhæð kr. 1.750.000 hvort ár.
Kómedíuleikhúsið skal setja upp og sýna leikverk, samkvæmt eftirgreindri dagskrá, í Ísafjarðarbæ:
- Kómedíuleikhúsið kemur að hátíðarhöldum 17. júní á gildistíma samningsins, með leikatriði sem skipulagt skal í samráði við upplýsingafulltrúa Ísafjarðarbæjar.
- Kómedíuleikhúsið tekur þátt í jólasveinadagskrá Safnahússins á Ísafirði – sem flutt verður tvívegis fyrir hvor jól, á gildistíma samningsins.
- Kómedíuleikhúsið sér til þess að grunn- og leikskólabörn í Ísafjarðarbæ fái eina leiksýningu eða menningardagskrá á hvoru ári, árin 2021 og 2022. Sýnt verður í skólunum sjálfum, alls eru þetta 9 viðburðir árlega. Heimilt er að samsýna/samkeyra sýningar í þeim bæjarkjörnum þar sem grunn- og leikskóli eru starfræktir í sama húsnæði, í samráði við
forstöðumenn skólanna. - Kómedíuleikhúsið býður eldri borgurum Ísafjarðarbæjar uppá menningardagskrá á Hlíf og/eða Eyri, eigi sjaldnar en tvær sýningar á hvoru ári, árin 2021 og 2022.