Hörmungardagar verða haldnir hræðilegir á Hólmavík, og á netinu, 26.-28. febrúar árið 2021. Hörmungardagar á Hólmavík eru hátíð alls þess ömurlega, ómögulega, neikvæða og niðurdrepandi í heiminum á versta tíma ársins, í dimmum og köldum febrúar segir í fréttatilkynningu frá aðstandendum hátíðarinnar.
Dagskráin í ár mun einkennast af zoom-viðburðum og netviðburðum og verða margir aðgengilegir á síðunni Hörmungardagar á Facebook. Hátíðin hræðilega er því aðgengileg öllum, hver sem búseta þeirra er.
Meðal viðburða eru:
- Kaffi og hungursneið ásamt Draugagöngu í Sauðfjársetrinu
- Hörmungarkviss hjá Galdrasýningunni á Ströndum – á netinu
- Upplestur á margvíslegum Strandahörmungum – á netinu
- Námskeið í sjálfsvorkunn með Svavari Knúti
Um Hörmungardaga
Mörgum þótti síðasta ár lengi að líða, hörmungar, pestir og margvísleg ótíðindi hafa einkennt síðustu misseri. Í fréttatímum dynja á fólki allskonar upplýsingar um yfirvofandi ógnir og hamfarir og hörmungar á heimsvísu. Á þessum erfiðu tímum er hátíðin Hörmungadagar kærkomin tilbreyting. Þessi gleðskapur, þar sem ýmislegt frekar erfitt, dapurlegt og jafnvel bragðvont hefur verið á dagskránni verður því haldin á Ströndum helgina 25.-28. febrúar. Þar verður tekist á við margvísleg vandamál og áskoranir með tveimur hrútshornum. Í fyrra greindist fyrsta Covid-smitið á Íslandi í lok Hörmungadaga, en nú er ætlunin að ljúka hátíðinni með því að peppa liðið upp!
Dagskrá:
Föstudagur 26. feb.
12:15 Hvatastöðin stendur fyrir Dansað gegn ofbeldi í Hnyðju að fyrirmynd UN Women – öll velkomin
12:30-15:00 Opið hús í Þróunarsetrinu á Hólmavík – Höfðagötu 3
13:00 Rannsóknasetur HÍ á Ströndum með upplestur á margvíslegum Strandahörmungum í beinni á vefnum
19:00 Draugaganga út í Orrustutanga frá Sauðfjársetrinu (ekki fyrir mjög ung börn og viðkvæmar sálir)
21:00 Hörmungarkviss á vegum Galdrasýningarinnar, Arnar S. Jónsson sér um spurningarnar á Zoom og Kahoot!
Laugardagur 27. feb.
11:00-19:00 Hörmungarganga upp á Sjónvarpshæð. Við hvetjum fólk til að fara í sína eigin hörmungargöngu upp á Sjónvarpshæð en á toppnum verður kassi þar sem hægt er að sækja sér verðlaun með þemanu hörmungar sem finnast á hverju heimili
12:00-19:00 Hörmulegt ljósmyndamaraþon á vegum Augnabliksins – ljósmyndaklúbbs Arnkötlu
13:00 Rannsóknasetur HÍ á Ströndum með upplestur á margvíslegum Stranda hörmungum á vefnum
14:00 Námskeið í sjálfsvorkunn með Svavari Knúti í Hnyðju
15:00 Kyrrðarkraftur kynnir verkfæri gegn streituhörmungum í Hnyðju
18:00 Leiksýning frá Leikfélagi Hólmavíkur um galdramál og Klemus – á vefnum
20:00 Hörmungartónleikar með Svavari Knúti á Galdrasýningunni, verð 2000 kr.
Sunnudagur 28. feb.
11:00-19:00 Hörmungarganga upp á Sjónvarpshæð. Við hvetjum fólk til að fara í sína eigin hörmungargöngu upp á Sjónvarpshæð en á toppnum verður kassi þar sem hægt er að sækja sér verðlaun með þemanu hörmungar sem finnast á hverju heimili
12:00-19:00 Hörmulegt ljósmyndamaraþon á vegum Augnabliksins – ljósmyndaklúbbs Arnkötlu
13:00 Rannsóknasetur HÍ á Ströndum með upplestur á margvíslegum Stranda hörmungum á vefnum
14:00 Hörmungarkaffi á Sauðfjársetrinu. Á boðstólnum verður Hungursneið og kaffi. Dagrún Ósk þjóðfræðingur segir frá Plágum og pestum fyrr og nú og Dúllurnar og Anna Björg verða með tónlistaratriði, svokallað hörmungarkvein – bæði í raunheimum og streymi.
18:00 Strandapepp í lok Hörmungadaga með Pálmari Ragnarssyni fyrirlesara – á vefnum
Það er félagið Arnkatla – lista- og menningarfélag sem stendur fyrir Hörmungadögum, ásamt góðum samstarfsaðilum í héraðinu. Frumkvæðissjóður Sterkra Stranda styður við uppátækið. Þetta er í fimmta sinn sem Hörmungardagar eru haldnir. facebook.com/hormungardagar