Sigurður Páll Jónsson alþingismaður Miðflokksins segir að hann hafi ekki gefið neitt út um það hvort hann hyggist bjóða sig fram að nýju til setu á Alþingi, en kosningar verða á árinu.
Haraldur Benediktsson, alþingismaður Sjálfstæðisflokksins segir í svari við fyrirspurn Bæjarins besta að það dragi að því að hann skýri áform sín : „Ég hef ekki verið með neinar yfirlýsingar um að hætta – eða sækjast ekki eftir endurkjöri. En heldur ekkert gefið út neinar sérstakar fyrirætlanir núna, um sæti eða slíkt – en það dregur að því.“
Berþór Ólason, Miðflokki og Þórdís Gylfadóttir, Sjálfstæðisflokki hafa ekki svarað fyrirspurnum Bæjarins besta.
Óstaðfestar fregnir herma að Þórdís hyggi á fyrsta sætið sem Haraldur skipar og þá hefur Teitur Björn Einarsson frá Flateyri tilkynnt að hann sækist eftir þingsæti.
Ásmundur Einar Daðason, Framsóknarflokki hefur ákveðið að bjóða sig fram í Reykjavík norður, Halla Signý Kristjánsdóttir gefur kost á sér áfram og sækist eftir 1.-2. sæti á lista Framsóknarflokksins. Lilja Rafney Magnúsdóttir, Vinstri grænum sækist áfram eftir 1. sæti á lista flokksins og Guðjón Brjánsson, Samfylkingu segir að hann hafi ekki gefið annað til kynna en að hann væri til þjónustu reiðubúinn áfram.