Fóru með vistir til Ingjaldssands

Björgunarsveitin Sæbjörg á Flateyri fór í gær með vistir til Elísabetar Pétursdóttur, bónda á Sæbóli á Ingjaldssandi. Veðrið var eins og best verður á kosið en snjóalög voru lítil efst á heiðinni. Farið var upp úr  Valþjófsdal.

Sæból er eini bærinn sem enn  er í byggð á Ingjaldssandi og er Elísabet ein þar yfir veturinn. Hún er með um 200 fjár.

Elísabet sagði í samtali við Bæjarins besta að Sandsheiðin væri ekki mokuð, enda hefði það ekkert upp á sig. Það væru alltaf  snjóflóð á ákveðnum stöðum Dýrafjarðarmegin svo sem í Gerðhamradalnum og á Alviðrumýrunum og snjó skefur fram Gerðhamradalinn og gerir ófært. „Svo er engin snjór upp á heiðinni og yfir hana og niður í Löngubrekkuna og í Vatnahjalla. Þar er snjór en ekki mikill en hins vegar hliðarhalli niður að Skógarbrekkunum. Það héldist ekki opið þótt yrði mokað.“

Elísabet segir að tíðarfar hafi verið gott og lítill snjór, „hann rífur af í norðanáttinni og fýkur fram á heiði.“  Hún segir að mokað hafi verið í byrjun desember og „þá fór ég í jólaferð.“

Símasamband sem er radíósími, hefur verið í lagi að hennar sögn, en bilaði þó í sumar. „Snerpa kom með nettengingar frá Klofning sem sent er í Símahúsið. Það virkar þolanlega. Ég get nýtt mér heimabankann og sé sjónvarpið í gegnum neti og það er fínt.“

Myndir: Eyþór Jóvinsson og Bernharð Guðmundsson.

Hrft af Sandsheiðinni út á Ingjaldssand.
Eins og sjá má er ekki mikill snjór á heiðinni.