Eignir 30.000 Íslendinga

Á vefsetri Þjóðskjalasafns er nú aðgengilegur gagnagrunnur sem tekur til uppskrifta dánarbúa, skiptabóka og uppboða sem til eru frá 18. og 19. öld. Verkefnið var unnið af stærstum hluta af Má Jónssyni prófessor.

Dánarbúin eru þungamiðja verkefnisins og innihalda þau nákvæmar skrár yfir eigur fólks og taka m.a. til fatnaðar, sængurfata, mataríláta, verkfæra og búfjár.

Á landsvísu eru varðveitt gögn um eignir eða arfaskipti ríflega 30.000 einstaklinga, mest frá árunum 1821 – 1870. Flest dánarbúin eru eftir fólk á aldrinum 30 – 70 ára, jafnt fátæka sem ríka og um 40% af hundraði þeirra eru konur.

Hér er því um afar merkilegt framtak að ræða sem mun auðvelda öllum almenningi að fá upplýsingar um eignir fólks við andlát en einnig upplýsingar um erfingja og fjölmargt annað sem varpar ljósi á líf og starf fólks fyrr á öldum.