Sumarið 2019 var gert átak í því að bora eftir neysluvatni í Bolungavík og voru boraðar nokkar holur. Þrjár þeirra, sem eru í Hlíðardal fram undir Skálavíkurheiði, hafa skilað góðum árangri og vatnsmagnið úr þeim fer langt með að duga fyrir sveitarfélagið.
Að sögn Jóns Páls Hreinssonar, bæjarstjóra verður í sumar komið upp 1000 rúmmetra miðlunartanki við neðra vatnsbólið í Hlíðardal og hann tengdur við vatnsveituna fyrir haustið. Búast má við að vatnsveitan muni þá geta sinnt allra vatnsþörf heimila og atvinnufyrirtækja. Hingað til hefur verið notast við yfirborðavatn í Bolungavík.
Í fjárhagsáætlun ársins eru lagðar 15 milljónir króna til verksins.