Á morgun er frítt í sund

Sundlaugin á Suðureyri

Miðvikudaginn 17. febrúar bjóða sundlaugar um allt land frítt í sund sem aukaskammt af G-vítamíni dagsins sem er „hreyfðu þig daglega“.

G-vítamín á þorra er verkefni Geðhjálpar þar sem sendar eru út daglegar ráðleggingar í 30 daga sem ætlað er að bæta geðheilsu.

G-vítamínið er byggt á Geðorðunum 10 og 14 lífsorðum Héðins Unnsteinssonar og Þórdísar Rúnarsdóttur. 

Á vefsíðu átaksins gvitamin.is er að finna góð ráð til að bæta geðheilsuna og þar er meðal annars sagt:

Gefstu ekki upp, velgengni í lífinu er langhlaup

Því betur sem við undirbúum okkur fyrir langhlaupið sem lífið er, því minni hætta er á að við ofkeyrum okkur. Þess vegna er mikilvægt að byggja sig upp, bæði andlega og líkamlega. En í hverju felst velgengni hlaupsins? Er það hversu hratt við hlaupum, hversu vel við hlaupum eða hversu margir horfa á okkur hlaupa? Klappa fyrir okkur? Elska okkur? Hver er þess umkominn að ákveða í hverju árangurinn af hlaupinu felst? Ættum við ekki að fá að ráða ferðinni og muna að hlaupið, lífið, er sameiginleg vegferð okkar allra, og sá fyrsti sem kemur í mark vinnur ekki endilega. Sigurinn felst í því hvað þú gerðir á ferðalaginu.

DEILA