48% hærra verð í dreifbýlisverslunum

Meðalverð á dagvörum í dreifbýlisverslunum er að jafnaði 48%
hærra en í lágvöruverðsverslunum. Verðlag hjá dreifbýlisverslunum
er hins vegar aðeins um 8% hærra en í sk. þægindaverslunum.
Þetta kemur fram í niðurstöðum könnunar á vörukörfu verðlagseftirlits ASÍ sem birtar voru 10. og 12. september 2020.
Gerður var verðsamanburður á 104 vörutegundum sem seldar eru í
dagvöruverslunum. Verðkönnunin náði bæði til verslana sem
tilheyra verslunarkeðjum og hins vegar verslana á landsbyggðinni
sem flestar eru reknar af einstaklingum eða hópi einstaklinga í
heimabyggð.

Minnt er á þetta í skýrslu um dreifbýlisverlsun sem Emil Karlsson gerði fyrir Byggðastofnun. Emil rannsakaði stöðu dreifbýlisverslunarinnar frekar. Markmið rannsóknarinnar er að greina hverjar eru skilvirkustu stuðningsaðgerðir við litlar verslanir í dreifbýli til að þær haldi velli.

Rannsóknin byggir m.a. á upplýsingum frá 22 litlum dreifbýlisverslunum um allt land og greiningu á reynslu þeirra. Greindir voru ekstrarreikningar nokkurra þessara dreifbýlisverslana.

Ástæður hærri verðlagningar í dreifbýlisverslunum en öðrum dagvöruverslunum eru einkum þríþættar: Hærra innkaupsverð frá birgjum, flutningskostnaður og hlutfallslega hærri rekstrarkostnaður á hverja selda einingu.

Í skýrslunni leggur Emil Karlsson til sjö tillögur til þess að styrkja stöðu dreifbýlisverslunar:

Samstarf við verslunarkeðjur
til að lækka vöruverð.

Opinberar styrkveitingar til
dreifbýlisverslana.

Sérsniðin ráðgjöf fyrir
dreifbýlisverslanir.

Hæfnisuppbygging, kynningar
og fræðsla.

Netverslun með áfengi.

Samkeppniseftirlit fylgi eftir
rannsókn á mismunandi
verðlagningu til
dagvöruverslana.

Bókhaldsþjónusta.

Varðandi styrkveitingar er lagt til:

  1. Áframhald verði á styrkveitingum á borð við þá sem veittir hafa verið undir áætluninni „Verslun í strjálbýli“ með nokkrum breytingum þó. Krafist verði mótframlags frá verslununum í samræmi við veltu. Verslanir með 40 millj. kr. ársveltu eða minna geti fengið styrk sem nemur allt að 100% af kostnaði við verkefnið. Verslanir með á bilinu 41 til 350 millj. kr. veltu fái allt að 80% styrk, eins og núgildandi reglur kveða á um. Aðrar verslanir, sem falla innan skilgreiningar um strjálbýlisverslanir geti fengið styrki sem nemur allt að 60% verkefniskostnaðar.

2. Minnstu verslanir sem reknar hafa verið samfellt í þrjú ár með ársveltu undir 40 millj. kr. geti sótt um að fá rekstrarstyrki sem nema um 15% af veltu (án vsk) en það er algengt hlutfall starfsmannakostnaðar. Þeirri fjárhæð er ætlað til að niðurgreiða rekstur.

3. Dreifbýlisverslanir geti sótt um og fengið niðurgreiddan hluta flutningskostnaðar í samræmi við tillögur starfshóps sem nýlega skilaði tillögum til samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra.
Við ákvörðun styrkupphæðar verði annars vegar miðað við fjarlægð verslunar frá Reykjavík og hins vegar eðlilegt hlutfall af umfangi vörukaupa.

DEILA