Vitaferð með Landhelgisgæslunni

Árlega fara rafvirkjar Vegagerðarinnar hringferð um landið í eftirlits- og vinnuferð í vita og dufl sem aðeins er hægt að komast í frá sjó.

Í ár fengu þeir Guðmundur Jón Björgvinsson og Ástþór Ingi Ólafsson að sigla með áhöfn Landhelgisgæslunnar á varðskipinu Þór en mikið og gott samstarf er milli gæslunnar og Vegagerðarinnar.

Lagt var af stað 7. september sem er mun síðar en venja er. Kom það til vegna ástandsins í þjóðfélaginu.

Verkefnalisti ferðarinnar var langur. Fara þurfti í 36 vita og taka upp fjölmörg dufl.

Guðmundur og Ingi fengu far með þyrlu Landhelgisgæslunnar út í Galtarvita og Hornbjargsvita en þyrlan var þá í gæsluflugi nærri Þór.„Það var heppilegt því við hefðum aldrei komist í þessa vita frá sjó, öldurnar voru slíkar.“ í Galtarvita er vindrafstöð því þar er ekki sól allt árið.

Þegar þeir félagar komu á staðinn sáu þeir að það vantaði spaðana á rafstöðina. Nú var illt í efni því auka spaðar voru ekki með í för. „Allt stefndi í að við þyrftum að senda heila þyrlu eftir auka spaða í varðskipið sem var þá inní Jökulfjörðum. En svo vorum við svo ljónheppnir að við fundum spaðann óskaddaðann, hann hafði þá fokið af og lent aðeins frá vitanum. Við gátum þá fest hann upp að nýju og sluppum með skrekkinn.“

Guðmundur og Ingi segja vistina um borð í varðskipum Landhelgisgæslunnar einstaklega góða. „Það er tekið ótrúlega vel á móti manni. Manni líður nánast eins og heima. Þessir strákar í áhöfninni eru orðnir vinir manns enda kynnist maður vel í svona ferðum,“ segja þeir.

Skipverjar voru þeim félögum einnig innan handar alla ferðina. „Þeim finnst held ég gaman að fara með okkur í land, það brýtur upp dagskrána hjá þeim og þeir fá góða æfingu í fjörulendingum. Það er gott að eiga góða að og Vegagerðin á mjög góða að þar sem Landhelgisgæslan er,“ segir Guðmundur.