Vesturbyggð: samningur um endurnýjun hjúkrunarrýma

Bæjarráð Vesturbyggðar hefur samþykkt samning heilbrigðisráðuneytisins og Vesturbyggðar við Framkvæmdasýslu ríkisins, um umsjón með frumathugun vegna möguleika þess að endurnýja hjúkrunarrými við Heilbrigðisstofnun Vestfjarða á Patreksfirði, aðstöðu fyrir félagsstarf aldraðra, dagvistunarpláss og þjónustuíbúðir.

Samkvæmt samningnum er greiðsluhlutfall Vesturbyggðar 17%.

Að sögn Rebekku Hilmarsdóttur, bæjarstjóra eru hjúkrunarrúmin 11 sem endurnýja á en áætlaður kostnaður við það liggur ekki fyrir.

Samkvæmt vinnuskjali Velferðarráðuneytisins frá mars 2018 um framkvæmdaáætlun um byggingu hjúkrunarrýma og tillögur um framhald til 2023 er kostnaður við hvert nýtt hjúkrunarrými með búnaði áætlaður 36,5 m.kr. Þar er gert ráð fyrir að kostnaður við endurbyggingu sé 75% af kostnaði við nýtt. Það jafngildir 27,4 m.kr.

Vísitala neysluverðs hefur hækkað um 8,5% frá mars 2018 og má því ætla endurnýjunarkostnaðinn við hvert hjúkrunarrými verði nærri 30 m.kr. Samkvæmt þessu áætlunum gæti kostnaður vegna hjúkrunarrýmanna verið um 330 m.kr og hlutur Vesturbyggðar 56 m.kr.