Vesturbyggð: bæjarstjórn fagnar friðlýsingu Látrabjargs

Umhverfis- og auðlindaráðuneytið hefur sent Vesturbyggð tillögu sína að friðlýsingu Látrabjargs. Í erindi ráðuneytisins kemur fram að ráðuneytið hafi í samvinnu við Bjargtanga, félag land- og sumarhúsaeigenda að Hvallátrum við Látrabjarg  undanfarin misseri unnið að friðlýsingu Látrabjargs.

Svæðið er á náttúruverndaráætlun þar sem um eitt stærsta fuglabjarg Evrópu er að ræða, og flokkast svæðið sem alþjóðlega mikilvægt fuglasvæði.

Í tillögu ráðuneytisins að friðlýsingu segir að „sá hluti Látrabjargs sem er innan friðlýsta svæðisins er um 9,7 km langur og er bjargið þar hæst um 444 metrar yfir sjávarmáli. Friðlandið nær jafnframt til hafsbotns, lífríkis og vatnsbóls 1 km frá landi.“

Umhverfisstofnun hefur umsjón með friðlandinu. Með Umhverfisstofnun starfar samstarfsnefnd sem í eiga sæti fulltrúar stofnunarinnar, Vesturbyggðar og tveir fulltrúar landeigenda tilnefndir af landeigendum Hvallátra. Fulltrúi Umhverfisstofnunar skal vera formaður nefndarinnar. Samstarfsnefndin skal funda eigi sjaldnar en tvisvar á ári.

Hlutverk samstarfsnefndar er að fjalla um framkvæmdaáætlun og landvörslu fyrir friðlandið, samvinna við gerð stjórnunar- og verndaráætlunar ásamt endurskoðun og breytingar á henni, breytingar á friðlýsingarskilmálum og önnur stefnumótandi mál sem varða friðlandið.

Í stjórnunar- og verndaráætlun fyrir friðlýsta svæðið skal m.a. fjalla um landnýtingu,
landvörslu, vöktun, uppbyggingu, fræðslu og miðlun upplýsinga, verndaraðgerðir, takmörkun flugs, veiðar og aðgengi ferðamanna, þar á meðal aðgengi fatlaðs fólks. Stjórnunar- og verndaráætlun er háð staðfestingu ráðherra.

Almenningi er heimil för um friðlandið.

Göngustafir, aðrir en þeir sem gegna hlutverki hjálpartækja aldraðra og fatlaðra, eru bannaðir innan friðlandsins. Umferð reiðhjóla er óheimil utan akvega og bílastæða. Umferð hesta innan friðlandsins er óheimil. Umhverfisstofnun er heimilt að loka fyrir umferð um friðlandið. Óheimilt er að hafa gæludýr í friðlandinu frá 1. maí til 15. september. Óheimilt er að lenda þyrlum og öðrum mönnuðum loftförum innan friðlandsins nema að fengnu leyfi Umhverfisstofnunar. Óheimilt er að nota fjarstýrð loftför nema með leyfi Umhverfisstofnunar. Öll umferð og landtaka skipa og báta innan friðlandsins er óheimil. Frá því banni eru undanþágur, einkum vegna hefðbundinna nytja og umferðar landeigenda. Næturdvöl og tjöldun er bönnuð
innan friðlandsins. . Öll meðferð elds er óheimil á svæðinu, þ.m.t. notkun ferðagrilla. Til verndar fuglalífi svæðisins er Umhverfisstofnun heimilt að takmarka umgengni um
svæðið.

Landvörðum eða öðrum starfsmönnum friðlandsins er heimilt að vísa af svæðinu
hverjum þeim sem brýtur gegn ákvæðum náttúruverndarlaga eða þeim reglum sem um svæðið gilda.

Bæjarstjórn Vesturbyggðar segir í bókun að hún sé  sammála um að friðlýsing svæðisins sé nauðsynleg aðgerð í ljósi fjölda þeirra ferðamanna sem fer um svæðið ár hvert og tekur undir þau sjónarmið sem koma fram í friðlýsingarskilmálum svæðisins og fagnar því að skilmálarnir sem nú liggi fyrir séu unnir í góðu samráði við landeigendur.

 

 

DEILA