Bakvörðurinn Linda Marín Kristjánsdóttir er gengin til liðs við Vestra. Linda er fædd árið 1999 og er alin upp innan raða forvera Vestra, Körfuknattleiksfélags Ísafjarðar. Hún hóf meistaraflokksferilinn ung að árum með KFÍ árið 2013 en þann vetur var liðið einmitt undir stjórn Péturs Más Sigurðssonar, núverandi þjálfari meistaraflokks kvenna hjá Vestra. Linda lék einnig með KFÍ veturinn 2014-2015 þegar meistaraflokki kvenna var síðast telft fram hér á Ísafirði. Síðan þá hefur hún leikið með Þór á Akureyri, Stjörnunni, Hamri og nú síðast Breiðablik, bæði í 1. deild og úrvalsdeild.
Þrátt fyrir ungan aldur kemur Linda því með reynslu og breidd inn í þennan unga leikmannahóp en liðið leikur einmitt sinn fyrsta heimaleik á tímabilinu á laugardaginn kemur kl. 12:15 þegar Grindavík kemur í heimsókn, en leikurinn verður að sjálfsögðu í beinni útsendingu.