Vestfirðir: íbúafjölgun síðustu 6 ár

Vestfirðingum fjölgaði um 2,1% frá 2014 til 2020 en fækkaði um 16,7% frá 1998 til 2020. Þetta kemur fram í Grænbók um byggðaáætun sem stjórnvöld hafa lagt fram sem umræðugrundvöll fyrir opið samráð um byggðastefnu fyrir næstu 15 ár.

Þróunin síðustu 6 ár hefur verið nokkuð frábrugðin íbúaþróuninni frá 1998 til 2020.  Það hefur orðið lítilsháttar íbúafjölgun á Vestfjörðum og Norðurlandi vestra, sem nær yfir Húnavatnssýslur og Skagafjörð.  Á bæðum þessum svæðum varð hins vegar töluverð fólksfækkun á árunum frá 1998 til 2020.

Eins hefur dregið úr hraðri íbúafjölgun á höfuðborgarsvæðinu síðustu sex árin miðað við lengra tímabilið. Þannig varð 41,3% fjölgun á höfuðborgarsvæðinu síðustu 22 ár en ekki nema 11,6% fjölgun síðustu 6 ár. Langmest íbúafjölgun hefur orðið á Suðurnesjum frá 1998 eða 77,1%. Þar hefur fjölgunin síðustu 6 ár verið 29,1%.

Þriðja mesta vaxtarsvæðið frá 1998 er Suðurland en þar hefur íbúum fjölgað um 34,2%. Fjölgunin síðustu 6 ár er hins vegar aðeins helmingur þess eða 17,4%.

Á Norðurlandi eystra og Austurlandi hefur verið meira jafnvægi í íbúaþróuninni allan tímann með fjölgun um 8%.

Annað sem athygli vekur í gögnum grænbókarinnar er að erlendum ríkisborgurum fjölgaði mikið frá 1998 til 2020. Þeir voru 2,1% íbúa landsins árið 1998 en voru orðnir 13,5% í fyrra. Fjölgunin er nærri 40 þúsund manns.  Flestir eru útlendingarnir á Suðunesjum og voru 2020 nærri fjórðungur íbúa svæðisins. Næstflestir eru þeir á Vestfjörðum eða 16,5% íbúanna.  Á höfuðborgarsvæðinu eru erlendur ríkisborgarar 13,2% íbúanna.