Vegleysur á sunnanverðum Vestfjörðum

Lýsing á stöðu og sýn á úrbætur.

 

Þann 5. janúar á nýbyrjuðu ári birtist grein Höllu Signýjar Kristjánsdóttur í BB um ónýta eða úr sér gengna vegi sunnanverðum Vestfjörðum og krafa lögð fram um jarðgöng.

 

Við, sem ökum þessa vegi, þekkjum vel þetta ástand. Undrumst við að ekki skuli hafa verið tekið á þessu fyrr. Sveitarstjórn Tálknafjarðarhrepps hefur nokkrum sinnum vakið athygli á þessu á liðnum árum og sérstaklega leiðinni milli Patreksfjarðar og Tálknafjarðar. Bæjarstjórn Vesturbyggðar hefur á umliðnum árum fremur einblínt á tengingu frá Bíldudal og upp á Dynjandisheiði. Augu þeirra hafa nú samt opnast fyrir slæmri stöðu vegarins milli byggðanna.

 

Þetta ástand er ekki að gerast á nýliðnu ári eða einhverjum þeim næstu þar á undan. Skemmdirnar fóru að koma fram þegar sjóflutningar lögðust niður og landflutningar tóku nánast að öllu leyti við og tekið var að nota sí stærri og þyngri flutningabíla. Það sem hafði að mestu farið sjóleiðina var farið að flytja um vegi sem voru ekki ætlaðir til að mæta þessu breytta flutningamynstri. Það gerðist nánst í einu vetfangi. Þessi breyting  kom illa niður á bágbornum vegum á sunnanverðum Vestfjörðum. Viðkomandi stjórnvöld og stofnanir voru sofandi eða litu fram hjá breytingunni og brugðust seint og illa við til úrbóta. Og enn vantar mikið í þeim efnum.

 

Vegurinn um Mikladal í Patreksfirði og út í þorpið í Tálknafirði var í grunninn hátt í 60 ára að stórum hluta. Seinna var lagt á hann slitlag nánast í óbreyttu fari. Aðeins var sléttað og jafnað það efni sem fyrir var, síðan var þunnu millilagi dreift yfir og þar ofan á slitlag. Burðurinn var óbreyttur og er enn. Veikleikarnir komu strax í ljós með slitlagsskemmdum, þegar undirbyggingin þiðnaði í vætu og frostleysum að vetri og sérstaklega þegar voraði en jafnaði sig þegar frysti eða þornaði um.

 

Endurbygging vegarins yfir Hálfdán var lengi eina nútímalega og varanlega vegagerðin hér um slóðir. Sá vegur stendur sig enn furðu vel en er farinn að láta undan á köflum. Ég segi og hef sagt alla tíð,  þökk sé Halldóri Blöndal samgönguráðherra og Kristjáni Kristjánssyni verkfræðingi fyri þann veg. Síðan leið nokkur tími þar til eitthvað áþreifanlegt gerðist hér í endurbótum veganna. Endurnýjaður vegur um Raknadalshlíð var nánast lagður í sama fari og notað óflokkað efni og hann tæplega tvíbreiður. Það vildi svo vel til, að vegrinn var að mestu lagður um aurlitlar skriður og frostfríar. Bjargaði það burði vegarins og hélt honum í lagi.

 

Nú er komið að lokum, Halla Signý!

 

Þetta vegarkerfi er í rúst. Það verður aðeins verra og verra að fara um það með hverjum deginum sem líður. Að hluta er vegurinn alls ekki fær venjulegum fólksbílum og mikil hætta er á stórskemmdum ökutækja og slysum vegfarenda. Svæðið er nánast eitt atvinnusvæði og mikil umferð þar alla daga. Margir neyðast til að fara um þessa vegi daglega. Viðbrögð Vegagerðarinnar og samgönguyfirvalda virðast aðeins þau að hvetja vegfarendur til að fara um með hinni mestu aðgæslu.

 

Er upp á þetta bjóðandi einn daginn enn, Sigurður Ingi ráðherra samgöngumála!

 

 

Hvað er til ráða? Nýr vegur strax!

 

Leggja á nýjan veg strax um Mikladal og flytja vegarstæðið norður fyrir lækinn eða ána sem rennur um dalinn. Fara nánast gömlu leiðina, snjólétta, um dalinn upp undir dalbotn. Þaðan stutt jarðgöng yfir á Víðiseyrar í Tálknafirði. Stefna þaðan á Hálsgötubrún, lækka hana þar um 10 – 15 metra og endurleggja veg með minni halla inn hlíðina og koma inn á nýju brúna á Norður-Botnsá. Endurleggja veginn þaðan út í Tunguþorp. Laga veginn um Hálfdán og gera þar jarðgöng í um 300 metra hæð.

Horft inn í botn Mikladals við norðanverðan Patreksfjörð.

Það hefur enga þýðingu fyrir nútímann eða verandi sveitarstjórnarfólk að fara fram á  (löng) jarðgöng nokkrum tuga metra ofan sjávarborðs milli Patreksfjarðar og Tálknafjarðar og þaðan til Bíldudals. Þau koma ekki á þessari öld. Aldrei. Allir þeir, sem teljast nú á besta skeiði eða 20 ára og eldri, munu ekki lifa slíkar framkvæmdir þótt langlífir verði.

 

Meira mætti um þetta fjalla en þetta er nóg að sinni.

 

En þó:

 

Af tvennu mikilvægu er margfallt meiri  og brýnni nauðsyn á vegaframkvæmdum milli byggðalaganna á Patreksfirði, Tálknafirði og Bíldudal en nýjum vegi milli Bíldudals og Dynjandisheiðar. Sú framkvæmd hlýtur að vera númer 2 í forgangi.

 

Með nýárskveðjum til íbúa á sunnanverðum Vestfjörðum og annarra Vestfirðinga.

 

Úlfar B Thoroddsen

f.v. sveitarstjóri Patrekshrepps og forseti bæjarstjórnar Vesturbyggðar

 

 

Eftirmáli.

 

Þetta skilti með stuttri lýsingu á merkri framkvæmd um samgöngubætur og stóð við vegarbrúnina ármeginn við brúna yfir ána í Peningsdal  liggur nú á hliðinni aðeins fjær og skemmt.