Alþingi samþykkti í gær með öllum greiddum atkvæðum að fela ríkisendurskoðanda að gera úttekt á starfsemi Vegagerðarinnar í samræmi við skýrslubeiðni nokkurra þingmanna.
Meðal annars er farið fram á að eftirfarandi þættir verði skoðaðir:
*hvort framkvæmdir séu í samræmi við fjárheimildir,
*framkvæmd útboða með tilliti til laga um opinber innkaup, útboðsstefnu ríkisins og hvernig jafnræðis, meðalhófs og gagnsæis sé gætt, og
*hvort kröfur útboðslýsinga séu nægilega skýrar,
*hvaða gæðakröfur eru gerðar til að tryggja öryggi vegfarenda við vegaframkvæmdir sem Vegagerðin býður út.
Í greinagerð kemur m.a. fram að Vegagerðin er sérstök ríkisstofnun sem heyrir undir yfirstjórn samgöngu og sveitarstjórnarráðherra.
Hlutverk hennar, eins og það er skilgreint í lögum um Vegagerðina, framkvæmdastofnun samgöngumála, nr. 120/2012, er að byggja upp, viðhalda og reka samgöngukerfi ríkisins samkvæmt lögum. Henni er enn fremur ætlað að stuðla að öruggum sjálfbærum, greiðum og hagkvæmum samgöngum og að samgöngur þróist í samræmi við samfélagsleg og umhverfisleg markmið.
Hlutverk hennar er veigamikið í íslensku samfélagi en hún stendur vörð um öryggi vegfarenda á þjóðvegum landsins um leið og henni er falið að ráðstafa gríðarlegum fjármunum ár hvert í samgönguúrbætur um land allt. Afar miklu máli skiptir því að vel sé búið að rekstri stofnunarinnar og að hún sé rekin í samræmi við gildandi lög.
Þá segir í greinagerðinni að undanfarin misseri hefur nokkur umræða verið í samfélaginu um störf Vegagerðarinnar, í kjölfar nokkurra mála þar sem ófullkominn frágangur vega leiddi til tjóns og jafnvel dauða vegfarenda. Hefur það vakið upp spurningar um hvort starfsemi hennar sé háttað eins og best má vera.
Í ljósi þess mikilvæga hlutverks sem Vegagerðin sinnir og þeirra gríðarlegu fjármuna sem henni er falið að ráðstafa í umboði ríkisins telja skýrslubeiðendur rétt að leggja til að gerð verði sjálfstæð könnun á starfsemi hennar.