Þegar vegir molna

Ólafur Þór Ólafsson, sveitarstjóri Tálknafjarðarhrepps.

Ég er ekki læknir en veit samt að venjulegur plástur dugar ekki þegar það er komið drep í sár. Ég er heldur ekki sérfræðingur í samgöngumannvirkjum en ég veit samt að smávægilegar viðgerðir duga ekki til að bjarga ónýtum þjóðvegum á sunnanverðum Vestfjörðum. Sumt liggur bara hreint og klárt í augum uppi.

 

Gamlir og þröngir vegir molna undan álaginu.

Vegakerfið sem tengir Tálknafjörð og Vesturbyggð við umheiminn er barn síns tíma og stendur ekki undir þeirri umferð sem fer um það í dag. Vegirnir eru gamlir, þröngir og eru hreinlega að molna undan álaginu. Það þarf að fara yfir fjöll og hálsa og til að gera illt verra hefur Vegagerðin ekki það fjármagn sem þarf til að tryggja þá vetrarþjónustu sem bæði mann- og atvinnulíf á svæðinu kalla eftir. Það verður einfaldlega að setja vegakerfið á sunnanverðum Vestfjörðum á dagskrá í opinberri fjárfestingu.

 

Það þarf jarðgöng.

Í mínum huga felst framtíðarlausnin í samgöngumálum á svæðinu í uppbyggingu jarðgangna. Vegurinn um Mikladal, milli Tálknafjarðar og Patreksfjarðar, er á mörkum þess að vera nothæfur og til að komast yfir í Arnarfjörðinn þarf að fara um Hálfdán í meira en 500 metra hæð yfir sjávarmáli. Sveitarstjórnirnar í sveitarfélögunum tveimur á svæðinu eru sammála um að eina skynsamlega aðgerðin til framtíðar séu jarðgöng á milli þessara fjarða. Þá væru eftir leiðirnar um Kleifarheiði og Klettsháls eftir.

 

Engar ódýrar lausnir í boði.

Til að tengja þessa þrjá firði saman þyrfti jarðgöng sem væru samtals í kringum 10 kílómetrar að lengd. Miðað við nýjustu jarðgangnaframkvæmdir á Íslandi gæti slík framkvæmd kostað einhvers staðar nálægt 20 milljörðum króna. Þetta eru háar tölur og mikil fjárfesting, það gera sér allir grein fyrir því. En það er líka kostnaðarsamt að gera ekki neitt eða grípa til aðgerða sem duga ekki til að mæta þeirri þörf sem er til staðar. Það er einfaldlega engin einföld eða ódýr lausn í boði.

 

Tökum samtalið núna.

Það er núna sem tímapunkturinn er til að setjast niður, meta kostina af alvöru og taka ákvörðun um hvert skuli stefna. Það er ekki hægt að láta sunnanverða Vestfirði vera áfram afgangsstærð í vegakerfi Íslands eins og undanfarin ár og áratugi. Mínar væntingar eru að 2021 verði árið þar sem vegir og jarðgöng á sunnanverðum Vestfjörðum komist fyrir alvöru á dagskrá. Það er ekki hægt að bíða lengur og við á Tálknafirði erum klár í samtalið.

 

 

Ólafur Þór Ólafsson

sveitarstjóri Tálknafjarðarhrepps

DEILA