Stóra málið er fiskeldið, segir Teitur Björn Einarsson, varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins þegar hann er spurður að því hvernig hann sjái fyrir sér að á Vestfjörðum verði því markmiði náð að auka lífsgæði og búa til meiri verðmæti og þannig treysta afkomu fólks og fjölga atvinnutækifærum í byggðum landsins. En Teitur Björn setti þetta markmið sem meginverkefni stjórnmálanna fyrir komandi Alþingiskosningar.
„Það á að efla fiskeldið þar sem það er hægt í sátt við náttúruna. Það eru gríðarleg tækifæri í fiskeldinu og sem hefur sýnt sig að hefur jákvæð áhrif á byggðirnar með fjölgun atvinnutækifæra. Það gefur þeim aukinn þrótt. Við eigum að gera meira og nýta tækifærin betur og hraðar en verið hefur.“
Teitur Björn segir að kominn sé lagarammi fyrir umhverfi fiskeldis. Það eigi að grundvallast á bestu fáanlegri ráðgjöf. „Um þennan lagaramma ríkir því miður ekki sátt. Ennþá erum við að ganga lengra í því að takmarka fiskeldið en lagaumgjörðin gefur tilefni til.“
Hann segist mótfallinn því að loka svæðum án þess að fyrir liggi nokkur gögn þar um og nefnir sem dæmi Jökulfirði. „Það er ótækt að lagt sé til lokun svæða áður en fyrir liggja vísindaleg gögn um áhrif fiskeldis á svæðið. Hvorki áhættumat né burðarþolsmat hefur verið framkvæmt fyrir Jökulfirði. Þegar það liggur fyrir er hægt að ræða með málefnalegum hætti um hvernig skipuleggja skuli hafsvæðið.
Teitur Björn Einarsson bendir á að með lögfestingu áhættumats og burðarþolsmats hafi bannið við fiskeldi samkvæmt auglýsingu landbúnaðarráðuneytisins frá 2004 í raun ekkert gildi. Í samræmi við vilja löggjafans samkvæmt ákvæðum fiskeldislaga ætti að huga að fiskeldi í Steingrímsfirði og fjörðunum þar fyrir norðan í Strandasýslu og láta framkvæma burðarþolsmat og áhættumat og taka ákvarðanir um fiskeldið út frá þeim niðurstöðum.“
Sérlög um uppbyggingu raforkukerfisins á Vestfjörðum
Annað mál sem Teitur Björn nefnir er styrking raforkukerfisins á Vestfjörðum. Hann segir að nú séu Hvalárvirkjunaráform í biðstöðu. En það þýði ekki að stjórnvöld geti sett sínar fyrirætlanir líka í bið. „Það hefur verið gefið loforð um styrkingu raforkukerfisins á Vestfjörðum og það verður að vinna að því að efna það. Stjórnvöld eiga að koma á tengipunkti i Djúpinu, styrkja línurnar og koma á hringtengingu. Það eru aðrir hagkvæmir virkjunarkostir til viðbótar Hvalárvirkjun svo sem Skúfnavötn og Austurgilsvirkjun.Tengipunkturinn opnar fyrir þessa kosti. Það er verri kostur að styrkja bara línurnar og sleppa tengipunktinum því þá þarf áfram að flytja raforkuna inn á svæðið. Með tengipunkti í Djúpinu er hægt að auka raforkuframleiðslu á Vestfjörðum.“ Teitur Björn segir að það hljóti að koma til skoðunar að setja sérlög um uppbyggingu raforkukerfisins á Vestfjörðum ef núverandi regluverk komi í veg fyrir að stjórnvöld geti hrint stefnu sinni í framkvæmd.
Átak í samgöngum
Þriðja málið sem varðar uppbyggingu á Vestfjörðum og Teitur Björn Einarsson nefnir eru samgöngumálin. Hann segir að sameiningu sveitarfélaga á Vestfjörðum séu settar skorður af óviðunandi samgöngum og vilji stjórnvöld ná árangri í þeim málum þurfi að riðja úr vegi samgöngulegum hindrunum. Hann segist fylgjandi sameiningu ef hún leiði til betri þjónustu og hagkvæmni í rekstri en á Vestfjörðum séu samgöngur með þeim hætti að frekari sameining sveitarfélaga eigi á brattann að sækja. „Ég hefði kosið að sjá ríkisstjórnina stuðla að sameiningu sveitarfélaga án þvingunar. Það þarf jarðgöng milli Skutulsfjarðar og Álftafjarðar sem og göng út frá Tálknafirði hvort heldur það er til Patreksfjarðar eða Bíldudals. Sama á við í Strandasýslu. Það þarf bættar samgöngur þar einkum er það nýr vegur um Veiðileysuháls sem þarf að koma sem fyrst.“ segir Teitur Björn Einarsson að lokum.