Sveeitarstjórn Tálknafjarðarhrepps ræddi í síðustu viku drög Fjórðungssambands Vestfirðinga að jarðgangaáætlun fyrir Vestfirði, en óskað er eftir afstöðu hreppsnefndar til forgangsröðunar á jarðgöngum.
Í bókun sveitarstjórnarinnar segir að það sé einkum tvennt sem vegi þyngst
þegar jarðgangakostum á Vestfjörðum er forgangsraðað:
Tryggja þurfi heilsárssamgöngur milli atvinnusvæða þannig að unnt sé að
sækja vinnu og þjónustu árið um kring milli byggðarkjarna innan sama atvinnusvæðis.
Tryggja þurfi að flutningur fólks, aðfanga og afurða til og frá Vestfjörðum sé
mögulegur allt árið eftir greiðfærri Vestfjarðaleið.
Út frá ofangreindum forsendum er það álit sveitarstjórnar Tálknafjarðarhrepps að
forgangsröðun jarðgangaframkvæmda á Vestfjörðum skuli vera eftirfarandi:
1. Jarðgöng um Mikladal og Hálfdán séu ein framkvæmd og hönnuð, fjármögnuð og
unnin sem slík. Setja skal þessi jarðgöng í forgang á undan öðrum
jarðgangaframkvæmdum á Vestfjörðum ásamt Súðavíkurgöngum milli Skutulsfjarðar
og Álftafjarðar. Stefnt skal að því að þessi tvö jarðgangaverkefni verði unnin á sama
tíma til að tryggja áframhaldandi uppbyggingu á Vestfjörðum og öryggi íbúa og gesta.
2. Jarðgöng um Klettsháls skulu vera næst í röð jarðgangaframkvæmda á Vestfjörðum
til að tryggja örugga flutninga fólks og flutninga aðfanga og afurða til og frá
Vestfjörðum.
3. Breikka verður göng undir Breiðadals- og Botnsheiði sem fyrst til að koma í veg fyrir
tafir á umferð um göngin vegna mikillar umferðar. Líta ber þó á þá breikkun sem
viðhald á vegi en ekki sem nýja jarðgangaframkvæmd og á því að skoðast sem
viðhaldsverkefni.
4. Huga verður að bættu öryggi vegfarenda um Raknadalshlíð og Kleifaheiði og tryggja
öryggi á þeirri leið sem einni heild. Ekki er hægt að aðskilja þessa tvo vegarkafla þegar
litið er til öryggis vegfarenda og úrbóta til að bæta það.
Að lokum segir í bókuninni að sveitarstjórn Tálknafjarðarhrepps ítreki enn og aftur nauðsyn þess að horfa til framtíðar þegar samgöngur á Vestfjörðum verða bættar á allan hátt og það eins fljótt og kostur er til að tryggja áframhaldandi uppbyggingu og eflingu samfélaganna á Vestfjörðum.