Suðureyri: engin aðgerðaráætlun um sjóvarnir

Hverfisráð Sugandafjarðar hefur ritað bæjarráði Ísafjarðabæjar bréf og minnir á að ár er liðið frá því að sjór gekk á langt inn á land á eyrinni eftir mikið og stórt snjóflóð féll frá Norðureyri með þó nokkru tjóni og ekki síst ótta sem vaknaði hjá íbúum. „Viljum við koma á framfæri áskorun um að ýta á eftir aðgerðaráætlun um betri sjóvarnir á Suðureyri og frekara samtali bæjarins við íbúa.“

Bæjarráðið fól bæjarstjóra að vinna málið áfram.

Snjóflóð féll þann 14. janúar 2020 úr gilinu ofan við Norðureyri um kl. 23:05 og var háflóð um kl. 23:15 og stórstreymi. Á vef Veðurstofnunnar er lýsing á flóðinu svohljóðandi: „Sjávarstaða við Suðureyri var því með hæsta móti þegar snjóflóðið féll í hlíðinni og ruddist í sjó fram. Flóðbylgjan sem ferðaðist yfir Súgandafjörð var því stærri en ella.“

Flóðbylgjan var nógu há til að fara yfir varnargarðinn og á landi var hnédjúpur, krapablandinn sjór, sumstaðar upp á mið læri. Fyrir áhrif varnargarðsins kastast sjór hátt í loft upp og nær jafnvel upp á glugga á efri hæð, en meginflóðbylgjan var miklu lægri.

Þá segir í lýsingunni:

„Víða kastaðist krapablandaður sjór yfir þök á nærliggjandi húsum og jafnvel upp á glugga á annarri hæð. Í einu húsanna hélt fólk að það væri komið steypiregn þegar sjórinn skall á þakinu og streymdi fram af þakkantinum.“

Áhrifa flóðbylgjunnar gætti frá höfninni og út eftir öllum bænum að Brjóti við endimörk hans. Engin ummerki sáust utar. Lengst gekk hún á land um 30-35 m vegalengd frá sjávarmáli.