Slysið í Skötufirði: konan látin

Fram kemur í tilkynningu lögreglunnar á Vestfjörðum í morgun að það voru pólsk hjón með barn sem fóru út af veginum í Skötufirðinum í gær.

Seint í gærkveldi lést konan, á gjörgæsludeild Landspítalans. Nafn hennar er Kamila Majewska og var á þrítugsaldri. Eiginmaður hennar og ungt barn njóta læknisaðstoðar í Reykjavík og ekki tímabært að veita frekari upplýsingar um líðan þeirra.

Kamila og fjölskylda voru búsett á Flateyri og voru að koma frá Póllandi skömmu áður en slysið varð.

Stór hluti viðbragðsaðila fór í úrvinnslusóttkví vegna aðkomu þeirra að aðgerðunum. Á annan tug þeirra hafa dvalið, síðan í gær, í sóttvarnahúsi sem opnað var í Önundarfirði.
Vonir standa til að niðurstaða fáist síðar í dag um hvort hægt sé að aflétta sóttkvínni.