Sveitarstjórn Reykhólahrepps segir í umsögn sinni um tillögur Breiðarfjarðanefndar um framtíð svæðisins að hún sé sammála því að leggja til við ráðherra að hefja sem fyrst vinnu við að skoða ítarlega kosti og galla þeirra möguleika sem fjallað er um í skýrslunni og áhrif þeirra á Breiðafjarðarsvæðið og leggur sveitarstjórnin til að gerð verði valkostagreining með ítarlegri umfjöllun um áhrif friðunar á mismunandi þætti.
Sveitarstjórn er einnig sammála því að endurskoða þurfi lög um vernd Breiðafjarðar sem eru að stofni til frá árinu 1995 og að gera þau sterkari og skýrari og samræma þau nýjum náttúruverndarlögum og alþjóðlegum sáttmálum eftir því sem við á.
Jákvæð fyrir Ramsasvæði og þjóðgarði
Þá er sveitarstjórnin er jákvæð fyrir því að skoðaðir verði möguleikar á að gera Breiðafjörð að Ramsarsvæði og/eða skilgreina Breiðafjörð sem þjóðgarð að hluta til eða öllu leyti. Sú vinna þarfnast vandaðs undirbúnings og ítarlegs samráðs við alla hlutaðeigandi segir í umsögninni.
Sveitarstjórnin leggur einnig áherslu á, að samhliða frekari verndun verði unnin
nýtingaráætlunar fyrir haf- og strandsvæði Breiðafjarðar.
Þörungaverksmiðjan mikilvæg
Þá segir í umsögninni:
„Sveitarstjórn minnir á mikilvægi hefðbundinna hlunnindanytja og vinnslu sjávargróðurs fyrir íbúa Reykhólahrepps og að öll atvinnustarfsemi sé stunduð á sjálfbæran og ábyrgan hátt. Jafnframt er bent á að aukin vernd sem uppfyllir alþjóðleg viðmið og byggir á rannsóknum á lífríki svæðisins og sjálfbær og ábyrg nýting auðlinda, styrkir stöðu framleiðenda á markaði og styður við uppbyggingu ferðaþjónustu við fjörðinn.
Sveitastjórn vill leggja áherslu á stöðu Þörungaverksmiðjunnar á Reykhólum í byggðarlegu
samhengi fyrir samfélagið á Reykhólum. Sveitarstjórn leggur brýna áherslu á að litið verði til þeirrar þekkingar sem fyrirtækið býr yfir og varðar sjálfbæra nýtingu í firðinum.“