Merkir Íslendingar – Sigvaldi Kaldalóns

Sigvaldi Kaldalóns fæddist í Vaktarabænum í Grjótaþorpinu 13. janúar 1881,

sonur Stefáns Egilssonar múrara og k.h., Sesselju Sigvaldadóttur, ljósmóður Reykjavíkur um árabil.
Stefán var hálfbróðir Jóns í Litlabæ, föður Guðmundar Kamban rithöfundar og Gísla Jónssonar alþingismanns. Í móðurætt var Sigvaldi þremenningur við séra Bjarna Þorsteinsson á Siglufirði. Bróðir Sigvalda var Eggert söngvari.
Sigvaldi lauk stúdentsprófum frá Lærða skólanum 1902, embættisprófi í læknisfræði frá Læknaskólanum í Reykjavík 1908 og stundaði framhaldsnám í Kaupmannahöfn. Þar kynntist hann danskri og evrópskri tónlist og einnig eiginkonu sinni, Karen Margrethe Mengel Thomsen hjúkrunarkonu.
Sigvaldi varð héraðslæknir í Nauteyrarhéraði 1910, sem náði yfir innri hluta Ísafjarðardjúps. Hann bjó í Ármúla, örskammt sunnan við hið ægifagra Kaldalón þar sem skriðjökull úr Drangajökli skríður niður í lónið. Svo hugfanginn varð hann af þessu svæði að hann tók síðar upp ættarnafnið Kaldalóns.
Sigvaldi veiktist alvarlega af taugaveiki 1917 og náði sér aldrei að fullu. Hann dvaldist á Vífilsstöðum og á heilsuhæli í Kaupmannahöfn, var síðan héraðslæknir í Flateyjarhéraði 1926-29 og í Keflavíkurhéraði með aðsetur í Grindavík 1929-41. Hann var læknir í Grindavík til 1945 en flutti þá til Reykjavíkur.
Sigvaldi var sannkallað söngvatónskáld og er eitt vinsælasta tónskáld þjóðarinnar, fyrr og síðar.
Hann lærði nótur og fékk aðra tónlistartilsögn hjá dómorganistunum Jónasi Helgasyni og Brynjólfi Þorlákssyni og varð fyrir áhrifum af vini sínum Sigfúsi Einarssyni tónskáldi frá Eyrarbakka.

Meðal þekktustu laga Sigvalda eru t.d. Ísland ögrum skorið; Á Sprengisandi; Suðurnesjamenn; Svanasöngur á heiði; Erla, góða Erla; Ave María; Draumur hjarðsveinsins og Ég lít í anda liðna tíð.
 

Sigvaldi lést 28. júlí 1946.

Skráð af Menningar-Bakki.

DEILA