Merkir Íslendingar – Guðmundur J. Guðmundsson

Guðmundur J. Guðmundsson verkalýðsleiðtogi fæddist í Reykjavík 22. janúar 1927. Hann var sonur Guðmundar H. Guðmundssonar, sjómanns í Reykjavík, og Sólveigar Jóhannsdóttur húsfreyju. Guðmundur H. var fæddur á Hrafnseyri við Arnarfjörð og ólst upp á Hjallkárseyri.

 

Eiginkona Guðmundar var Elín Torfadóttir (1927 – 2016), framhaldsskólakennari, og eignuðust þau fjögur börn.

 

Guðmundur var í barnaskóla og tvo vetur í gagnfræðaskóla. Hann var stjórnarmaður og starfsmaður Verkamannafélagsins Dagsbrúnar 1953-96, varaformaður félagsins 1961-82 og formaður þess 1982-96, formaður Verkamannasambands Íslands 1975-92, sat í miðstjórn ASÍ og í stjórn Verkamannabústaða í Reykjavík.

 

Guðmundur var borgarfulltrúi fyrir Alþýðubandalagið 1958-62, sat í hafnarstjórn, í stjórn Innkaupastofnunar og í stjórn framkvæmdanefndar byggingaráætlunar borgarinnar. Þá var hann þingmaður Reykvíkinga fyrir Alþýðubandalagið 1979-87.

 

Guðmundur þótti herskár verkalýðssinni og liðtækur í verkfallsvörslu og ryskingum í stóru verkföllunum á sjötta áratugnum, enda kallaður Gvendur jaki. Hann var einn helsti málsvari verkalýðshreyfingarinnar á síðasta aldarfjórðungnum, tók þátt í flestum veigamestu kjarasamningum og var í forystu um gerð Þjóðarsáttarsamninganna 1990.

 

Guðmundur var þéttur á velli, breiðleitur, laglegur og svipsterkur, hafði sterka bassarödd, talaði hægt og gat kveðið fast að, hleypt brúnum og haft í hótunum ef mikið lá við. Hann brúkaði mikið neftóbak.

 

Guðmundur var mikill vinur Alberts Guðmundssonar, alþm. og stórkaupmanns, enda báðir bóngóðir málsvarar brjóstvitsins sem báru ekki nema hæfilega virðingu fyrir sérfræðingum og öðrum menntamönnum, fóru sínar eigin leiðir og rákust illa í flokkum sínum.

 

Ómar Valdimarsson skráði tvær viðtalsbækur við Guðmund.

 

Guðmundur lést 12. júní 1997.

Skráð af Menningar-Bakki.