Merkir Íslendingar – Binni í Gröf

Benóný Friðriksson, betur þekktur sem Binni í Gröf, fæddist í Vestmannaeyjum 7. janúar 1904. Hann var sonur Friðriks Benónýssonar formanns og Oddnýjar Benediktsdóttur húsfreyju en þau bjuggu í Gröf í Vestmannaeyjum.

 

Kona Binna var Sigríður Katrín Sigurðardóttir frá Þinghól í Hvolhreppi og eignuðust þau átta börn.

 

Binni hóf að sækja sjó 12 ára að aldri, var formaður á sexæringi 15 ára gamall er hann reri með þremur félögum sínum, en var fyrstu vertíðar sínar á mb. Nansen og var þar formaður í forföllum formannsins, Jóhanns á Brekku. Hann var síðan formaður á mb. Gullu í þrjár vertíðir, formaður á bátnum Newcastle og var með mb. Gottu, mb. Heklu, mb. Gulltopp, es. Sævar, mb. Þór og mb. Andvara.

 

Eftir það á árinu 1954  keypti Binni mb. Gullborgu, ásamt Einari Sigurðssyni frá Heiði, og var með hana til 1970 og varð brátt landsþekktur fyrir formennsku sína á þeim báti.

 

Binni var afburðasjómaður og einhver mesta aflakló sem fiskað hefur frá Vestmannaeyjum. Hann varð aflakóngur í Vestmannaeyjum 1954, hélt þeim titli samfellt í sex vertíðir og náði síðan titlinum margoft eftir það. Á þessum árum fylgdist öll þjóðin með tíðum fréttum af aflabrögðum og aflaklóm.

 

Binni þótti góður skipstjórnarmaður en var kröfuharður við sjálfan sig og skipshöfn sína, enda hafði hann ávallt á að skipa samhentri og harðduglegri skipshöfn.

 

Binni þótti auk þess lipur knattspyrnumaður á sínum yngri árum, var einn stofnenda Týs, afburðafimleikamaður og hafði mikinn áhuga á lundaveiðum. Hann var auk þess áhugamaður um kveðskap, kunni ógrynni af lausavísum og kvaðst gjarnan á við félagana. Hann var sæmdur fálkaorðunni árið 1971 fyrir störf sín.

 

Binni féll í höfnina í Vestmannaeyjum á leið í bátinn sinn og lést rúmri viku síðar á sjúkrahúsi Vestmannaeyja þann 12. maí 1972.

 

Heimildarmyndin Hafið gaf og hafið tók var gerð um ævi og feril Binna.

Skráð af Menningar-Bakki.

DEILA