Laxeldi:lagt til að Arctic Sea Farm fái 10.000 tonna leyfi í Dýrafirði

Umhverfisstofnun hefur auglýst tillögu að starfsleyfi fyrir Arctic Sea Farm hf. Um er að ræða sjókvíaeldi í Dýrafirði þar sem hámarks lífmassi á hverjum tíma má ekki fara yfir 10.000 tonn. Arctic Sea Farm hf. hefur verið með leyfi fyrir 4.200 tonnum í Dýrafirði og er því verið að auka eldið um 5.800 tonn.

Matvælastofnun hefur á sama tíma auglýst tillögu sína að rekstrarleyfi fyrir sömu framleiðslu.

Tillagan er byggð á matsskýrslu frá 2020 um viðbót við 5.800 tonna eldi í sjókvíuum í Dýrafirði. Verði leyfið gefið út kemur það í stað 4.200 tonna leyfis til laxeldis  og refnbogasilungsleyfis sem nú er í gildi í Dýrafirði.

Burðarþolsmat og áhættumat Hafrannsóknarstofnunar heimilar allt að 10.000 tonna hámarkslífmassa af laxi á hverjum tíma.

Umsóknin fór í gegnum mat á umhverfisáhrifum í samræmi við lög þar um.

Umhverfisáhrif afturkræf og hafa ekki varanleg áhrif

Umhverfisstofnun telur að mengun verði aðallega í formi lífræns úrgangs (bæði í föstu og uppleystu formi) sem frá eldinu muni berast í viðtakann. Að mati stofnunarinnar geta áhrif mengunarinnar verið talsvert neikvæð á eldissvæðum en afturkræf og munu því ekki hafa varanlega áhrif á ástand sjávar og botndýralíf. Eldið er kynslóðaskipt og svæði hvíld á milli kynslóða þannig að botninn jafni sig á milli. Umhverfisstofnun bendir á að í starfsleyfi stofnunarinnar fyrir starfseminni mun vera ákvæði þess efnis að stofnunin geti einhliða frestað útsetningu seiða, bendi niðurstöður vöktunar til þess að umhverfisaðstæður séu óhagstæðar á eldissvæði að mati stofnunarinnar og þarfnist frekari hvíldar.

Landeldi og ófrjór lax óraunhæfir kostir

Í matsskýrslu Arctic Sea Farm er fjallað um valkosti sem nefndir hafa verið í almennri umræðu um fiskeldi sem felast í eldi á landi, eldi í lokuðum sjókvíum og notkun á geldlaxi. Fram kemur að Arctic Sea Farm telji þá kosti óraunhæfa og hafi því útilokað þá. Eldi á landi feli í sér mun hærri stofn- og rekstrarkostnað en sjókvíaeldi ásamt því að kalla á stórt landsvæði undir eldisstöð og aðgengi að miklu vatni. Eldi í lokuðum kvíum og notkun á geldlaxi séu á tilraunastigi og séu því ekki raunhæfir kostir.

Skipulagsstofnun telur rök framkvæmdaraðila um að áðurnefndir kostir geti ekki talist raunhæfir í ljósi markmiða framkvæmdarinnar vera málefnaleg og fellst á að ekki hafi verið þörf á að meta þá sem valkosti við áformaða framkvæmd í matsskýrslu framkvæmdaraðila.

 

Bæði Matvælastofnun og Skipulagsstofnun telja hverfandi líkur á því að laxeldi dreifi sjúkdómum í villtan lax, þó telur Skipulagstofnun að laxalús geti haft neikvæð áhrif á laxastofna í Dýrafirði og bætir því við að þeirra áhrifa geti gætt um alla Vestfirði vegna þess hve langt lirfur lúsarinnar geti rekið í sjónum.

Stofnanir ósammála um hættu á erfðamengun

Varðandi erfðablöndun þá kemur fram að niðurstöður áhættumats Hafrannsóknastofnunar eru að lítil hætta sé á áhrifum laxeldis á náttúrulega laxastofna vegna fjarlægðar frá laxveiðiám. Engin lax-, bleikju- eða urriðaveiði er skráð og lítið er vitað um silungsveiði í ám í Dýrafirði. Með hliðsjón af áhættumati Hafrannsóknastofnunar telur Skipulagsstofnun að áhrif framkvæmdar á laxastofna í þeim ám sem matið nær til verði óveruleg.

Hins vegar segir Skipulagsstofnun að horfa verði til áhrifa á laxastofna í öðrum ám vegna fars strokulaxa og telur stofnunin að fyrirhugað eldi Arctic Sea Farm komi til með
að hafa nokkuð neikvæð áhrif á villta laxastofna á Vestfjörðum.

Umsagnafrestur um tillöguna að starfsleyfi er til 8. febrúar og til 5. febrúar um tillöguna að rekstrarleyfi.

DEILA