Landsnet: nýtt tengivirki í Breiðadal

Tengivirkið í Breiðaal. Mynd: Landsnet.

Bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar hefur samþykkt heimild til handa Landsnets til þess að vinna deiliskipulag vegna yfirbyggingar nýs tengivirkis Landsnets í Breiðadal.

Landsnet áformar að reisa yfirbyggt tengivirki í Breiðadal sem skal leysa núverandi tengivirki af hólmi. Markmið framkvæmdarinnar er að bæta afhendingaröryggi raforku á Vestfjörðum. Fyrirhugað tengivirki verður staðsett við hlið núverandi tengivirkis sem stendur á sameiginlegri lóð Landsnets og Orkubús Vestfjarða úr landi Veðrarár-Ytri.

Um er að ræða allt að 130 m² byggingu sem verður um 8 m á hæð, með áherslu á snyrtilega ásýnd. Í kjölfar gangsetningar nýs tengivirkis verður núverandi tengivirki tekið niður. Framkvæmdin verður unninn í samstarfi við Orkubú Vestfjarða. Einnig verður leitað samráðs við Vegagerðina vegna nálægðar við þjóðveg auk annarra hagsmunaaðila.
Tengivirkið í Breiðadal er innan iðnaðarsvæðis i6 samkvæmt gildandi aðalskipulagi. Svæðið er 1,7 ha að stærð og skilgreint sem afhendingarstaður fyrir raforku, með útmötun um 12 GWh á ári.
Aðalskipulagið gerir ráð fyrir óbreyttri notkun en svigrúmi til endurbóta. Áhersla er lögð á snyrtilegt umhverfi vegna sýnileika svæðisins. Í aðalskipulaginu er einnig tilgreint að bætt afhendingaröryggi raforku sé forgangsatriði.

Skemst er þess að mminnast að fyrir réttu ári var óveðursáhlaup á Vestfjörðum og setti það  flutningskerfið á Vestfjörðum úr skorðum og þá sérstaklega tengivirki Landsnets í Breiðadal.

DEILA