Kollafjarðarneskirkja

Kollafjarðarneskirkja stendur utarlega við norðanverðan Kollafjörð á Ströndum á fallegum stað.

Eftir að gömlu timburkirkjurnar að Felli í Kollafirði og Tröllatungu í Kirkjubólshreppi voru lagðar niður og sóknirnar sameinaðar, var ný kirkja úr steinsteypu byggð árið 1909 miðsvæðis í sókninni.

Kirkjan var reist á einu sumri á Kollafjarðarnesi og vígð þann 5. september.
Hún er elsta steinsteypta hús í Strandasýslu sem enn stendur og er friðuð.

Merkustu gripir Kollafjarðarneskirkju eru allstór altaristafla sem á er máluð mynd af Kristi í grasagarðinum eftir A. Dorph.
Einnig er þar altaristafla úr gömlu Fellskirkju, kvöldmáltíðarmynd máluð á tré með vængjum á hjörum. Á vængina er letraðir upphafstafirnir gefendanna, H.I.S. og A.B.D. Halldór Jakobsson sýslumaður á Felli og Ástríður Bjarnadóttir kona hans gáfu Fellskirkju myndina árið 1758.

Kirkjan á einnig fágætan kaleik og patínu með ártalinu 1711.

Kollafjarðarneskirkja er í Hólmavíkurprestakalli í Vestfjarðaprófastsdæmi.