Íþróttamaður Bolungavíkur 2020: Hreinn Róbert Jónsson og Stefanía Silfá Sigurðardóttir tilnefnd

Tilnefnd til íþróttamanns Bolungarvíkur 2020 eru Hreinn Róbert Jónsson og Stefanía Silfá Sigurðardóttir.

Frá þessu er greint á vefsíðu Bolungavíkurkaupstaðar.

Hreinn Róbert er tilnefndur fyrir handbolta. Hann hefur leikið alla leiki Harðar undanfarið ár. Hann hefur farið fyrir hópnum sem heimamaður og hvetur samherja sína áfram sem og yngri iðkendur. Hann gefur sér tíma til að ræða við yngir iðkendur og er alltaf tilbúinn að leggja sig fram fyrir samherjana. Hreinn Róbert er lykilmaður 1. deildarliðs Harðar í handbolta og verður það vonandi um ókomin ár.

Stefanía Silfá er tilnefnd fyrir körfubolta. Hún leikur með nýjum meistaraflokki kvenna hjá Vestra. Hún hefur bætt sig jafnt og þétt á síðustu árum og er efnilegur leikmaður. Hún er góður liðsfélagi og mætir vel í fjáraflanir og viðburði á vegum deildarinnar.

Í vikunni verður tilkynnt á vefnum um íþróttamann Bolungarvíkur 2020 og veitingu viðurkenninga að þessu sinni vegna farsóttarinnar og samkomutakmarkana.