Ísafjarðarbær: ekki vilji til sameiningar sviða

Ekki er stuðningur við þá tillögu að sameina velferðarsvið og skóla- og tómstundasvið Ísafjarðarbæjar. Bæjarráð vísað fyrir áramótin tillögu frá HLH ráðgjöf ehf um skoðun á því hvort tilefni væri til endurskipulagningar á sviðum sveitarfélagsins, þ.e. á velferðarsviði og skóla- og tómstundasviði, þannig að úr yrði eitt svið – fjölskyldusvið.

Fræslunefnd bæjarins bókaði í síðustu viku það mat sitt að ekki sé tímabært að sameina velferðarsvið og skóla- og tómstundasvið þar sem þetta eru stórir og viðkvæmir málaflokkar. En nefndin telur mikið tækifæri í að auka samvinnu milli sviðanna og kannaður verður möguleiki á að samnýta starfsmenn sviðanna.

Íþrótta- og tómstundanefnd tók í sama streng á sínum fundi um málið  og segir að sameining sviðanna sé ekki tímabær að svo stöddu. Þessi svið standi fyrir stórum málaflokkum og ljóst er að vinna við sameiningu á þeim sé mikil vinna sem mun taka töluverðan tíma.

Málið gengur nú til bæjarráðs sem tekur afstöðu til tillögu bæjarritara um að heimila bæjarstjóra að hefja ráðningarferli nýs sviðstjóra skóla- og tómstundasviðs, með það í huga að nýr sviðsstjóri taki við á fyrstu mánuðum ársins 2021.

Tilefnið er að núverandi sviðsstjóri er ráðinn fram í ágúst 2021 en mun vilja hætta fyrr ef kostur er.